Áskriftin að Samstöðinni hækkar um áramótin

Fjölmiðlar 29. des 2023

Á aðalfundi Alþýðufélagsins sem haldinn var í gær var samþykkt að hækka grunnáskrift að Samstöðinni úr 2.000 kr. í 2.500 kr. Stuðningsáskriftir hækka jafnt hlutfallslega, tvöföld áskrift í 5.000 kr. og fjórföld í 10.000 kr.

Ástæða hækkunarinnar er annars vegar verðlagsbreytingar og hins vegar aukin þjónusta, en á árinu hóf Samstöðin bæði útvarps- og sjónvarpsútsendingar.

Samstöðin heldur úti frétta- og skoðanavefnum samstodin.is. Samstöðin býr til umræðuþætti sem sendir eru út í útvarpi og sjónvarpi, á Facebook og youtube og í allar helstu hlaðvarpsveitur. Næstu skref er að kanna hvort önnur fjarskiptafélög en Síminn treysti sér til að dreifa dagskrá Samstöðvarinnar til sinna viðskiptavina.

„Ef áskrifendum fjölgar og ef okkur tekst að auka aðrar tekjur, svo sem auglýsingar, langar okkur að þróa fréttayfirlit í sjónvarpi og útvarpi,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri. „Það vantar sárlega samhengi í fréttir á Íslandi, að þeir séu sagðar svo samhengi þeirra skiljist.“

Áskrifendum hefur fjölgað jafnt og þétt á árinu. Langflestir áskrifenda kjósa að láta áskriftina jafnframt renna sem félagsgjöld til Alþýðufélagsins, en Alþýðufélagið á og rekur Samstöðina. Samstöðin er því í eigu hlustenda, áhorfenda og lesenda. Og það eru þeir sem ákvarða áskriftarverðið á aðalfundi.

Til samanburðar þá er full áskrift að Morgunblaðinu 9.965 kr. Full áskrift að Heimildinni er 4.690 kr., áskrift að Viðskiptablaðinu er 5.995 kr. og að Stöð 2 8.990 kr.

Á aðalfundinum var kosin stjórn Alþýðufélagsins: Eyjólfur Guðmundsson eðlisfræðingur og formaður stjórnar, Guðmundur Hrafn Arngrímsson landslagsarkitekt og formaður Samtaka leigjenda, Gunnar Smári Egilsson blaðamaður, María Pétursdóttir myndlistarkona og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður. Og til vara: Björn Jónasson útgefandi, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir prófessor og rithöfundur og Sanna Magdalena Mörtudóttir mannfræðingur og borgarfulltrúi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí