Íslensk stjórnvöld bregðast fötluðu fólki í leit að vernd

„Mál Hussein Hussein er birtingarmynd þess að íslensk stjórnvöld eru að bregðast hópnum á mörgum sviðum, s.s. í umsóknar- og matsferli, löggæslu og réttindagæslu fatlaðs fólks. Það hefur einnig brugðist Hussein Hussein með tilliti til heilbrigðisþjónustu og endurhæfingar, en fatlað fólk sem verður fyrir ofbeldi og vanvirðandi meðferð á rétt á þjónustu og meðferðarúrræðum vegna afleiðinga ofbeldis.“

Þetta er meðal þess sem segir í athugasemdum ÖBÍ réttindasamtaka, Landssamtakanna Þroskahjálp og feminísku fötlunarsamtakanna Tabú til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og undirstofnana ráðuneytisins um réttindi fatlaðs fólks í leit að vernd á Íslandi. Athugasemdunum komu formenn félaganna á framfæri á fundi með ráðherra í gær, fimmtudag.

ÚTL geri sömu mistök aftur og aftur

Samtökin benda á að íslensk stjórnvöld séu ábyrg fyrir að vernda fatlað fólk á flótta sérstaklega vegna viðkvæmrar stöðu þess. Þau segja að bæta hafi átt verklag og ferla í slíkum málum, og samráðsvinna stjórnvalda við heildarsamtök fatlaðs fólks hafi hafist fyrr á þessu ári en enn ekki skilað niðurstöðu. Á meðan sjáist sömu mistök Útlendingastofnunar raungerast aftur og aftur, til að mynda í máli Hussein.

Meðferð stjórnvalda á umsókn Hussein er tekin saman í stuttu máli í athugasemdunum: „Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 12. desember, 2022 að brottvísun Hussein Hussein og fjölskyldu hafi verið ólögmæt. Samt sem áður velja stjórnvöld að áfrýja dómi héraðsdóms til landsréttar og gera þannig að engu valdaójafnvægi jaðarsetts einstaklings gagnvart ríkinu. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu frestað brottvísun Hussein þar sem íslensk stjórnvöld hafa ekki uppfyllt skyldur sínar við að tryggja öryggi og grunnþjónustu fyrir Hussein í Grikklandi. Í því samhengi hyggst nú stofnun stjórnvalda vísa fjölskyldu Hussein Hussein úr landi og aðskilja þau þrátt fyrir að hann reiði sig á þau við allflestar athafnir daglegs lífs.“

Að sundra fjölskyldum er hættulegt

Þá vísa samtökin til rannsókna sem sýni „að fatlað fólk þarf mun frekar að reiða sig á fjölskyldu sína um öryggi og grunnþarfir en ófatlað fólk“ og að „fatlað fólk í leit að vernd og á flótta kemst síður af án fjölskyldumeðlima.“

Samtökin óska eftir því að „útkoma samráðs stjórnvalda og heildarsamtaka, sem fór fram fyrr á árinu, verði gerð opinber og að stjórnvöld skilgreini hvernig breytingar verði innleiddar til þess að stjórnvöld uppfylli skyldur sínar“ og að gengist verði „við niðurstöðu dómsstóla á Íslandi og tilmælum Mannréttindadómstól Evrópu í máli Hussein Hussein“. Loks minna þau á „að ákvörðun um að sundra fjölskyldum er ekki eingöngu mótsögn við grunngildi íslensks samfélags um að styðja og varðveita fjölskyldur heldur beinlínis hættulegt fyrir fatlað fólk í leit að vernd.“

Sjá nánar fréttatilkynningu á vef ÖBÍ.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí