Fjöldi fólks hefur brugðist ókvæða við þeim fréttum, nú á miðvikudag, að Útlendingastofnun hyggist brottvísa fjölskyldu Husseins Hussein hið snarasta. Mál þeirra vakti athygli seint á síðasta ári þegar við almenningi blasti harkaleg meðferð lögreglumanna á Hussein við fyrri brottvísun, en Hussein er í hjólastól.
Hvað er þessi stofnun búin að kosta okkur?
Orri Vésteinsson skrifar á Facebook:
„Hér er verið að verja einhver prinsipp sem ég held að séu öllu venjulegu fólki óskiljanleg og ósamrýmanleg viðteknum hugmyndum um siðlegt samfélag. Vill ekki einhver stjórnmálamaður stíga fram og útskýra af hverju það er nauðsynlegt að níðast svona á þessu fólki?“
Helga Völundar Draumland spyr:
„Hvaða sturlun er þetta eiginlega? Þarna eru tvær ungar konur, afburðanemendur og ætla sér mikið eftir námið hér á landi. Tilbúnir skattgreiðendur, höfum við efni á þessari heimsku? Þarf ekki einhver að reikna út hvað þessi stofnun er búin að kosta okkur með þessari ábyrgðarlausu hegðun.“
Einar Steingrímsson er ómyrkur í máli og skrifar:
„Nasistar fjórða áratugarins á Íslandi hefðu verið ánægðir með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.“
Vanhugsað eða úthugsað?
Fyrri ákvörðun um brottvísun fjölskyldunnar var hrint með úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu um að hún hefði verið óheimil. Þar með var hrakningasögu þeirra um íslenska stjórnsýslu þó ekki lokið. Útlendingastofnun tilkynnti fjölskyldu Husseins Husseins á þriðjudag að henni verði vísað hið snarasta úr landi, í kjölfar úrskurðar Mannréttindadómstólsins þess efnis stofnuninni væri heimilt að brottvísa öðrum meðlimum fjölskyldunnar en Hussein sjálfum. Heimilt en ekki þarmeð skylt, brottvísunin sjálf er sem fyrr að öllu leyti ákvörðun á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
Útlendingastofnun tefur ekki við þessa hlið málsins: Fréttastofa RÚV hermir að fjölskyldumeðlimir hafi til miðnættis nú að kvöldi miðvikudags til að tilkynna hvort þú muni yfirgefa landið „sjálfviljug“ eins og það heitir en verða að öðrum kosti flutt burt með valdi.
Albert Björn Lúðvíksson, lögmaður, segir ákvörðun Útlendingastofnunar annað hvort „fullkomlega vanhugsaða“ eða þá úthugsaða tilraun til að komast framhjá niðurstöðu mannréttindadómstólsins „og vona það að Hussein fylgi bara fjölskyldu sinni, systkinum sínum og móður, til Grikklands, af því að hann geti ekki hugsað sér að vera án þeirra. Það læðist svona að manni sá grunur, að það sé nú kannski tilgangurinn með þessari framkomu stjórnvalda.“