Þórdís Helgadóttir rithöfundur afþakkaði boð um að lesa upp úr nýútgefinni skáldsögu sinni á starfsmannafundi forsætisráðuneytisins næstkomandi mánudag, vegna ósættis við útlendingastefnu íslenskra stjórnvalda og dugleysi þeirra andspænis átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Þórdís birti boð ráðuneytisins og svar sitt á Facebook á mánudag. „Góðan daginn Þórdís,“ hófst erindi ráðuneytisins. „Áhugi er í forsætisráðuneytinu að fá þig í heimsókn á starfsmannafund okkar nk. mánudag 11 desember til að kynna og lesa úr nýrri bók þinni.“ Síðan er tilgreind tímasetning og að starfsmannafundir ráðuneytisins eru haldnir í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Erindinu lýkur á orðunum „Viltu vinsamlegast svara eins fljótt og hægt er“.
Og það virðist Þórdís hafa gert. „Mér barst bréf úr húsi valdsins“, skrifar hún á Facebook. „Og svaraði þannig:“ – síðan fylgir svar hennar til ráðuneytisins, svohljóðandi í heild:
Svarbréf Þórdísar
„Sæl (nafn) og hjartans þakkir fyrir boðið!
Ég myndi svo gjarnan vilja koma og lesa upp fyrir starfsfólk forsætisráðuneytisins, sem er upp til hópa eflaust mikið menningar- og bókafólk sem gaman væri að fá að hitta.
Því miður verð ég samt að afþakka.
Þetta eru undarlegir tímar þar sem hver dagur er nýtt áfall og maður fylgist með því þar sem verið er að myrða börn í þúsundavís – ég næ varla utan um það að ég sé einu sinni að skrifa þessi orð. Eins og svo mörg önnur upplifi ég gríðarlegan vanmátt, okkur finnst við vera að hrópa út í tómið hvern einasta dag, þar sem við biðlum til stjórnvalda að gera þó að minnsta kosti það litla sem í þeirra valdi stendur til að spyrna á móti bókstaflegu þjóðarmorði.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að margt af ykkar starfsfólki er í sjálfu sér ekki í stöðu til að hafa áhrif. En innan ykkar veggja – í þessu húsi valdsins – eru svo sannarlega líka þau sem fara með ákvörðunarvaldið fyrir hönd þjóðarinnar.
Mig langar því að biðja þig að koma á framfæri einlægri ósk um a) að veita öllum Palestínumönnum hér á landi alþjóðlega vernd af mannúðarástæðum, b) greiða fyrir tafarlausri fjölskyldusameiningu, c) fordæma þjóðarmorðið fullum fetum á alþjóðavettvangi og d) slíta stjórnmálasambandi við Ísraelsríki.
Þetta eru okkar börn. Það er undir okkur öllum komið að gera það sem við getum. Ég er svo sem bara átakafælinn rithöfundur úti í bæ sem vill auglýsa eigin verk sem mest og best, og undir venjulegum kringumstæðum væri auðvitað hægt að halda notalega bókmenntastund á aðventunni án þess að spyrja um pólitíska afstöðu. En kringumstæðurnar eru ekki venjulegar og ég veit yfirhöfuð ekki alveg hvernig við eigum að fara að því að njóta aðventunnar. Þess vegna mun ég líka birta afrit af þessu svari á samfélagsmiðlum.
Með vinsemd og virðingu,
Þórdís Helgadóttir“