Í dag og í gær hafa fjölmargir gagnrýnt harðlega opinbera stuðningsyfirlýsingu Víðis Reynissonar, sviðstjóra almannavarna, við forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur. Yfirlýsing hans birtist á sérstakri Facebook-síðu en þar má einnig finna sambærilegar yfirlýsingar Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfs Guðnasonar, fyrrverandi sóttvarnarlæknis. Tvennt hefur fyrst og fremst þótt vafasamt við þetta. Það að Þórólfur taki svo opinbera afstöðu annars vegar. Hins vegar hafa jafnvel fleiri þó gagnrýnt Katrínu fyrir að reyna að baða sig í ljóma helstu hetja Covid-tímanna hræðilegu. .
Þannig skrifar Halldór Auðar Svansson, varaþingmaður Pírata, til að mynda: „Covid var stórkostlegt áfall sem þjóðin gekk í gegnum saman. Að spila svona inn á minningar fólks af þessum tíma, að biðla til fólks að velja manneskjuna sem þá var forsætisráðherra núna sem forseta – mér finnst það vanvirða sem er erfitt að koma almenningi í orð. Mesta vanvirðan er nefnilega oft þannig – hún er það mikil vanvirða að það er erfitt að lýsa tilfinningunum sem hún vekur.“
Miðað við viðbrögð á samfélagsmiðlum þá virðist sem þetta Covid- kosningabragð hafi frekar veikt framboð Katrínar en styrkt það. Líklega hafa flestir dregið þá ályktun að myndböndin væru á vegum hennar framboðs. Svo er hins vegar ekki. Raunar er sú að það er Kári Stefánsson sem stendur að baki framtakinu og það án þess að ræða við hana.
„Þessi stuðningssíða er ekki hluti af kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur eða gerð í samráði við hana. Þetta er síða sem Kári Stefánsson lét setja í loftið fyrir þessar stuðningsyfirlýsingar sem þar eru,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fjölmiðlakona og náinn samstarfsmaður Kára.
Hún segir í samtali við Samstöðina að það sé fremur afstaða þeirra sem gagnrýna sem sé sérkennileg og öfgafull. Það dugi að lýsa yfir stuðningi við Katrínu til þess að verða skotmark. „Flestir af þessum frambjóðendum eru ekki fólk úti í bæ heldur fólk úr valdastöðum eða menningarstarfi með greiðan aðgang að elítufólki og fjölmiðlum. Og farið nú að ákveða ykkur, þið eruð ýmist að kalla eftir hápólitísku embætti sem stöðvi þingmál á færibandi og breyti allri samfélagsgerðinni til hins betra þótt forseta séu ekki tryggð slík völd í stjórnarskrá, eða þá að frambjóðendur mega ekki hafa látið í ljós skoðun. Katrín Jakobsdóttir kemur vissulega úr valdastöðu og þess vegna sætir hún meiri gagnrýni og grandskoðun og það er eflaust réttmætt en þessi paranoja er komin út yfir allan þjófabálk. Það eru allir sem lýsa yfir stuðningi við Katrínu orðnir sjálfkrafa skotmark og eiga helst að missa embætti og æru,“ segir Þóra Kristín.