„Ég ætlaði ekki að kveða mér hljóðs í sambandi við forsetakosningarnar en fæ ekki lengur orða bundist. Kosningabarátta Katrínar Jakobsdóttur og stuðningsfólks hennar er komin á hrollvekjandi stig. Hlýðið Víði og kjósið Katrínu!“
Þetta skrifar Stefán Erlendsson stjórnmálaheimspekingur á Facebook en hann segir að dropinn sem fyllt mælinn hafi verið opinber stuðningsyfirlýsing Víðis Reynissonar, sviðstjóra almannavarna, við forsetaframboð Katrínar. Svo virðist sem Katrín hafi gagngert sóst eftir stuðningi þeirra sem voru áberandi í COVID. Á Facebook-síðu framboðs hennar hafa birst stuðningsmyndbönd frá Víði en einnig Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfi Guðnasyni, fyrrverandi sóttvarnarlæknis. Neðst í fréttinni má sjá yfirlýsingu Víðis.
Stefán segir að það sé í raun hneyksli maður í stöðu eins og Víðir lýsir yfir opinberum stuðningi. „Nú síðast steig Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna, sem er í aðalhlutverki vegna eldgosa á Reykjanesi um þessar mundir, á stokk og lýsir yfir stuðningi við framboð Katrínar. Þegar Covid-faraldrinum lauk þakkaði ríkislögreglustjóri almenningi fyrir samheldni og samstöðu sem hún sagði snúast um að hlýða Víði. Opinber stuðningsyfirlýsing Víðis við Katrínu Jakobsdóttur er því algert hneyksli. Frasinn „Ég hlýði Víði“ hefur fest rætur í íslenskri þjóðarvitund og margir hafa skartað prófílmynd á Facebook með áletruninni,“ segir Stefán og bætir við að lokum:
„Víðir þarf annað tveggja að stíga niður sem sviðsstjóri Almannavarna sem fólki ber að hlýða á neyðartímum eða bakka með stuðningsyfirlýsinguna. Það fer hrollur um marga við þessa sérstöku stöðu sem upp er komin og minnir á Norður-Kóreru og ríki þar sem foringjahollusta er í fyrirrúmi.“