„Ég er í stjórn RÚV. Ég hef aldrei áður tjáð mig opinberlega um setu mína þar. Í dag get ég ekki orða bundist og er sleginn.“
Þetta skrifar Mörður Áslaugarson á Facebook en hann segist hafa lagt fram tillögu um að Ísland myndi ekki taka þátt í Eurovision í ár vegna þátttöku Ísrael. Hann segir að sú tillaga hafi verið slegin út af borðinu án þess að kosið yrði um hana. Mörður skrifar:
„Á fundi stjórnar lagði ég fram eftirfarandi tillögu að ályktun vegna Eurovision: „Stjórn RÚV ályktar að ekki verði tekið þátt í Eurovision 2024 ef Ísrael tekur þátt í keppninni.“ Fundurinn hafnaði því að taka þessa tillögu til atkvæða. Aðeins Margrét Tryggvadóttir studdi hana.“
Í stjórn RÚV sitja, ásamt þeim Merði og Margréti, eftirfarandi fólk: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Rósa Kristinsdóttir, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Ingvar Smári Birgisson, Aron Ólafsson, Þráinn Óskarsson, Diljá Ámundadóttir Zoega og Hrafnhildur Halldórsdóttir