Yfirgnæfandi meirihluti fatlaðs fólks á Íslandi finnur fyrir gífurlegri andlegri vanlífðan. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Varða um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Ekki er hægt að segja annað um skýrsluna en að hún kolsvört. Í henni kemur fram að staða fatlaðs fólks á Íslandi sé einfaldlega hræðileg. Afleiðing þess er svo að sjö af hverjum tíu búa við slæma andlega líðan. Þetta var niðurstaða könnunar sem var lögð fyrir þau sem eru með örorku-, endurhæfingarlífeyrisréttindi eða örorkustyrk hjá TR. Um tíu prósent þeirra halda að það væri best ef þau væru dáin.
Fatlaðir voru spurðir um ýmis einkenni vanlíðan en hér fyrir neðan má sjá töflu sem sýnir svör þeirra eftir kyni og fjölskyldustöðu. „Taflan sýnir að tæplega þriðjungur svarenda finnur nær daglega fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (31,3%) og hefur átt í erfiðleikum með einbeitingu (30,3%),“ segir í skýrslunni og hún heldur áfram:
„Ríflega fjórðungur hefur verið niðurdreginn, dapur eða vonlaus (26,8%) og átt við lystarleysi eða ofát að stríða (26,3%). Tæplega helmingur hefur átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (45,9%). Meira en helmingur hefur fundið fyrir þreytu eða orkuleysi (56,7%) og tæplega fjögur af hverjum tíu hafa nánast daglega liðið illa með sig sjálf eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (38,9%). Lægra hlutfall hefur hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða (16,2%) og rétt tæplega eitt af hverjum tíu hefur hugsað um að það væri betra ef það væri dáið eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt (9,5%).“