Á þremur dögum hafa safnast yfir 8.000 undirskriftir við áskorun til íslenskra stjórnvalda um að leyfa palestínsku drengjunum Sameer og Yazan að vera um kyrrt á Íslandi en brottvísa þeim ekki til Grikklands, eins og fyrir liggur að óbreyttu. Drengirnir eru 12 og 14 ára gamlir og hafa verið í fóstri hjá íslenskum fjölskyldum síðan í sumar. Meðal þeirra fjölmörgu sem deila áskoruninni á Facebook og taka undir hana er Einar Már Guðmundsson rithöfundur, sem á þriðjudag lét henni fylgja knöpp færsla en skýr: „Get up, stand up … Látum þetta ekki gerast … að drengirnir verði sendir úr landi … Leyfið börnunum að vera hér …“
Fyrstur til að skrifa ummæli við færslu Einars var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði.
Neðan við færslu Einars Más skrifaði Hannes nú á þriðjudag að rannsóknir á Norðurlöndum sýni „að hlutfallslega fremja menn af palestínskum uppruna langflesta glæpi, og koma Sýrlendingar næstir.“ Þá segir Hannes að í Arabalöndum þrífist „einhver ofbeldismenning, sem við ættum að reyna að vera laus við.“ Á samhengi ummælanna má skilja að þar með hafi hann komið á framfæri afstöðu sinni í máli drengjanna tveggja.

Einar Ólafsson, skáld og bókavörður, spurði á móti: „Er það þetta sem þér dettur fyrst í hug þegar um er að ræða tvo drengi sem hafa einhvern veginn hrakist hingað? Fjölskyldur þeirra eru á Gasa og þeir lifa í stöðugum ótta um þær vegna linnulausra loftárása Ísraels. Og þá ferð þú eitthvað að fabúlera um glæpatíðni á Norðurlöndunum og ofbeldismenningu í Arabalöndunum!“
Hannes Hólmsteinn Gissurarson var einn helsti boðberi frjálshyggju á Íslandi beggja vegna aldamóta en virðist á seinni árum í vaxandi mæli hafa snúið athygli sinni frá efnahagsmálum og hugmyndafræði að óbeit á ókunnugu fólki. Síðast vakti Hannes athygli fjölmiðla undir lok síðasta sumars þegar hann öskraði, að sögn vitnis, á ókunnuga konu á Leifsstöð: „Það á ekki að hleypa svona fólki eins og ykkur inn í landið.“ Sjálfur tók Hannes fram, er hann greindi frá atvikinu, að umrædd kona hefði verið klædd „í múslimabúning“.
Ekki er ljóst hvort Hannes telst enn til áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins.