Vill neita palestínskum börnum um vernd vegna „ofbeldismenningar“ í Arabalöndum

Á þremur dögum hafa safnast yfir 8.000 undirskriftir við áskorun til íslenskra stjórnvalda um að leyfa palestínsku drengjunum Sameer og Yazan að vera um kyrrt á Íslandi en brottvísa þeim ekki til Grikklands, eins og fyrir liggur að óbreyttu. Drengirnir eru 12 og 14 ára gamlir og hafa verið í fóstri hjá íslenskum fjölskyldum síðan í sumar. Meðal þeirra fjölmörgu sem deila áskoruninni á Facebook og taka undir hana er Einar Már Guðmundsson rithöfundur, sem á þriðjudag lét henni fylgja knöpp færsla en skýr: „Get up, stand up … Látum þetta ekki gerast … að drengirnir verði sendir úr landi … Leyfið börnunum að vera hér …“

Fyrstur til að skrifa ummæli við færslu Einars var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði.

Neðan við færslu Einars Más skrifaði Hannes nú á þriðjudag að rannsóknir á Norðurlöndum sýni „að hlutfallslega fremja menn af palestínskum uppruna langflesta glæpi, og koma Sýrlendingar næstir.“ Þá segir Hannes að í Arabalöndum þrífist „einhver ofbeldismenning, sem við ættum að reyna að vera laus við.“ Á samhengi ummælanna má skilja að þar með hafi hann komið á framfæri afstöðu sinni í máli drengjanna tveggja.

Einar Ólafsson, skáld og bókavörður, spurði á móti: „Er það þetta sem þér dettur fyrst í hug þegar um er að ræða tvo drengi sem hafa einhvern veginn hrakist hingað? Fjölskyldur þeirra eru á Gasa og þeir lifa í stöðugum ótta um þær vegna linnulausra loftárása Ísraels. Og þá ferð þú eitthvað að fabúlera um glæpatíðni á Norðurlöndunum og ofbeldismenningu í Arabalöndunum!“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var einn helsti boðberi frjálshyggju á Íslandi beggja vegna aldamóta en virðist á seinni árum í vaxandi mæli hafa snúið athygli sinni frá efnahagsmálum og hugmyndafræði að óbeit á ókunnugu fólki. Síðast vakti Hannes athygli fjölmiðla undir lok síðasta sumars þegar hann öskraði, að sögn vitnis, á ókunnuga konu á Leifsstöð: „Það á ekki að hleypa svona fólki eins og ykkur inn í landið.“ Sjálfur tók Hannes fram, er hann greindi frá atvikinu, að umrædd kona hefði verið klædd „í múslimabúning“.

Ekki er ljóst hvort Hannes telst enn til áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí