Bjarni segir mótmæli Palestínumanna hörmung og vill loka landamærunum

„Það er hörmung að sjá tjaldbúðir við Austurvöll sem nú hafa staðið þar síðan 27. desember síðstliðinn,“ skrifar Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á Facebook. „Það er óboðlegt með öllu að Reykjavíkurborg hafi gefið leyfi fyrir tjaldbúðunum á þessum helga stað milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og Alþingis. Í gær beit Reykjavíkurborg höfuðið af skömminni með því að framlengja leyfið. Það má gera ráð fyrir að það hafi verið hugsað í þeim tilgangi að tryggja að tjöldin stæðu þarna að lágmarki fram yfir samkomudag þingsins í upphafi næstu viku.“

„Þessar dapurlegu tjaldbúðir hafa ekkert með hefðbundin mótmæli að gera sem löng hefð er fyrir að geti farið fram á Austurvelli,“ segir Bjarni. „Í þessu tilviki hefur Reykjavíkurborg leyft því að gerast að hópur mótmælenda kemur sér í heilan mánuð fyrir með tjöldum og búnaði. Ég gef ekkert fyrir lítillega breytt skilyrði sem fylgja framlengingu leyfisins frá því í gær. Hópurinn flaggar þarna fjölda þjóðfána Palestínu og festir á ljósastaura og tjöld.“

„Ég skil áhyggjur og óvissu þeirra sem dvelja hér fjarri fjölskyldum sínum, sem margar hverjar búa við skelfilegar aðstæður,“ skrifar Bjarni. En bætir við: „Hins vegar verður að muna að þeir sem mótmæla eru í landi sem fær margfalt fleiri umsóknir hælisleitenda en nágrannaríkin. Hærra hlutfall umsókna er jafnframt tekið til efnislegrar meðferðar hér með jákvæðri niðurstöðu. Ekkert Norðurlandanna hefur tekið við fleiri Palestínumönnum en Ísland undanfarið og ekkert annað land hefur tekið til flýtimeðferðar beiðnir um fjölskyldusameiningar eftir 7. október. Þessi hópur krefst þess nú að íslensk stjórnvöld gangi einnig lengra en allar nágrannaþjóðir til þess að tryggja að það fólk komist frá Gaza.“

Og Bjarni boðar enga hjálp fyrir fólk í vanda. Þvert á móti. „Það sem næst þarf að gerast í þessum málaflokki er að herða reglur um hælisleitendamál og samræma því sem gerist hjá nágrannaþjóðum. Auka þarf eftirlit á landamærum. Núverandi fyrirkomulag er algerlega komið úr böndunum, bæði varðandi kostnað og fjölda umsókna. Innviðir okkar komnir að þolmörkum og á því þingi sem tekur aftur til starfa á mánudaginn fram á sumar skiptir öllu að á þessum málum verði tekið af festu og öryggi. Alþingi hefur ítrekað brugðist og hafnað tillögum dómsmálaráðherra sem m.a. hafa átt að taka á þessari stöðu, þótt nokkur jákvæð skref hafi verið tekin. Samhliða þessu þarf að styrkja lögregluna m.a. með auknum heimildum í báráttunni gegn brotastarfsemi, þ.m.t. alþjóðlegri brotastarfsemi“ skrifar Bjarni.

Færsla Bjarna fær bæði stuðning og andmæli. „Ég hefði haldið að þú byggir yfir meiri samkennd en þetta. Fánarnir eru ekki settir upp til að móðga einn né neinn heldur til að minna á hryllinginn sem á sér stað í Palestínu og stöðu flóttafólks þaðan. Af svipaðri ástæðu blakta fánar Úkraínu víða um borg,“ skrifar Karen Kjartansdóttir almannatengill.

„Það er vonum seinna að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli rakna úr rotinu. Láttu rífa þessar tjaldbúðir, Bjarni Benediktsson,“ skrifar Gústaf Níelsson eftirlaunamaður.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí