Ekki færri en þrjú hús eru brunnin í Grindavík eða farin undir eldhraun. Engin leið er að meta ástand annarra eigna eða framtíð bæjarins að svo stöddu. Ítarlega verður fjallað um málið á Samstöðinni í kvöld.

Jörð opnaðist á sunnudagsmorgun norðan Grindavíkur á langri sprungu og hraun fór að renna klukkan 7.57. Hluti gossins var innan varnargarða sem hafa sannað ágæti sitt.
Um hádegisbil í gær opnaðist önnur sprunga steinsnar frá bænum. Þegar hraun úr þeirri sprungu fór að vella inn í bæinn og kveikti í húsum raungerðist í huga bæjarbúa sem höfðu yfirgefið Grindavík fyrr um nóttina í rýmingu á vegum Almannavarna, að versta sviðsmynd allra sviðsmynda var veruleiki. Þess utan að engin slys hafa orðið á fólki í hamförunum um helgina.
Grindvíkingar hafa með æðruleysi um árabil sætt sig við jarðskjálfta og nálægð við jarðeldana, segjast orðnir örmagna eftir álagið og eyðilegginguna. Bæjarstjóri Grindvíkinga, Fannar Jónsson, sagði í gærkvöld að bæjarbúar væru nú brotnir, ekki bara beygðir. Fannar kallar eftir öllum mögulegum styrk stjórnvalda og almennings.
Morgunblaðið leggur alla forsíðu blaðsins undir eldgosið í morgun undir fyrirsögninni Svartur dagur. Ljóst er að atburðir gærdagsins eru í hópi hinna stærstu.
Samstöðin mun í Rauða borðinu ræða ítarlega við Þorvald Þórðarson eldfjallafræðing í kvöld um hraunganginn undir Grindavík, þar sem áhrif til skemmri og lengri tíma verða krufin. Þá verður rætt um framhald atvinnulífs í bænum, verkalýðsmál, viðbrögð stjórnvalda og fleira.
Bæði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra töluðu til Grindvíkinga og þjóðarinnar í ávörpum í gærkvöld.