Enn einhver gæludýr í Grindavík

Þó búið sé að rýma Grindavík og hraun hafi streymt inn í bæinn þá eru einhver gæludýr enn í bænum. Í dag var reynt að setja upp kattabúr fyrir villiketti sem vitað er um en einnig sóttu sumir Grindvíkingar gæludýr. Þetta segir Soffía Sigurðardóttir sem var í dag á svokallaðri Grindavíkurvakt, ásamt mörgum öðrum. Í færslu á Facebook fer Soffía yfir þau verkefni sem þessi vakt hefur sinnt, en sumir hafa velt því fyrir sér hvers vegna ákveðið fólk fái að fara inn á þetta svæði sem öllum öðrum hafi verið bannað að fara inn á af öryggisástæðum.

„Já, það er ekki hættulaust að vera í Grindavík núna, en með öryggisviðbúnaði er hægt að halda áhættu innan ásættanlegra marka. Þessi viðbúnaður dugði til að í gær væri hægt að sinna ofantöldum verkefnum. Hann dugði hins vegar ekki til að taka á móti meiru á sama tíma og þar á meðal þeim mörgu íbúum Grindavíkur sem vildu sinna eigum sínum og heimilum. En, það mun koma að því,“ skrifar Soffía.

Hér fyrir neðan má lesa upptalningu Soffíu á helstu verkefnum Grindavíkurvaktarinnar.

– Slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk frá Borgarnesi til Árnessýslu mönnuðu stjórneiningar.

– Liðsmenn þeirra fylgdu líka öðru starfsfólki eftir, voru viðbragðsliðar með talstöðvar og gasmæla sem vara við gasmengun.

– Fylgdu líka fjölmiðlafólki sem kom í tveimur hópum inn á svæðið og einnig örfáum einstaklingum sem fengu að koma inn til að sækja gæludýr og setja upp kattabúr fyrir villiketti sem vitað var um.

– Mönnuðu einnig, ásamt starfsfólki Öryggismiðstöðvarinnar,  eftirlitsstöðvar með því hverjir kæmu inn á svæðið.

– Slökkviliðin mættu með tankbíla og dælur og dældu upp vatni þar sem komast þurfti að leiðslum til að sinna viðgerðum.

– Þeir sinntu líka tilkynningum frá öryggisfyrirtækjum um boð frá margvíslegum viðvörunarkerfum.

– Starfsfólk HS veitna, Landsnets og Mílu vann að því að tengja leiðslur sem höfðu rofnað og leita að bilunum í veitukerfum.

– Stórir flutningabílar komu hlaðnir stórum og smáum rörum.

– Fjölmennur hópur frá mörgum lagnaþjónustum, okkar ómissandi píparar, fóru hús úr húsi og tryggðu að á þeim héldist hiti og væri ekki vatnsleki.

– Rafvirkjar þurftu að sinna viðgerðum hér og þar til að koma rafmagni á svo margt sem þarf að virka, bæði rafstrengjum í jörðu og búnaði inni í húsum.

– Landmælingamenn frá verkfræðistofum voru ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra með dróna til að mæla mannvirki og færslur lands, lyftingar, sig og hliðrun.

– Vinnuvélastjórar fluttu efni og mokuðu upp í varnargarða.

– Rétt fyrir utan Grindavík mætti starfsfólk á hótel og eldaði hédegismat handa þeim sem voru við störf inni í bænum.

– Frá örfáum aðilum fengu fáeinir starfsmenn að koma til að huga að sérhæfðum búnaði. Bæði í Grindavík og Svartsengi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí