Mikilvægar heimildir um Grindavíkurgosið hafa farið að forgörðum því ljósmyndurum hefur verið bannað að koma nálægt bænum. Þetta segir ljósmyndarinn Kristján Logason en hann fullyrðir að það sé hagsmunamál allra að gosið sé sem best skrásett. Þó ekki vanti vefmyndavélar sem sýni gosið, þá segir Kristján að þær gefi skakka mynd af hörmungunum.
„Ein mynd segir meira en þúsund orð yfirvalda. Mikilvægi þess að atvinnuljósmyndarar og fréttamenn komist að svæðum þar sem atburðir gerast kristallast í þessari mynd frá Ragnari Th,“ segir Kristján á Facebook og deilir myndinni sem sjá má hér fyrir neðan. Til samanburðar má sjá mynd úr vefmyndavél hér fyrir ofan.
„Hann notaði dróna til verksins og þurfti að fljúga langt að á sama tíma og menn eru að athafna sig í jaðri eldgoss. Hversu margar myndir og hversu mörg heimildaraugnablik töpuðust vegna þess að fjölmiðlum er haldið í fjarlægð eins og börnum frá heitum potti. Til þess að almenningur skilji hvað er undir og hvað er í gangi þarf meira en vefmyndavélar. Fyrir mig þá segir þessi eina mynd meira en mestallt streymi dagsins og fleiri myndir frá Arctic-Images skýra betur en nokkuð annað afstöðu hrauns, gjár og húsa. Ein mynd getur sagt meira en þúsund orð yfirvalda sem hafa engan skilning á mikilvægi ljósmyndunar,“ segir Kristján.