Nettó harmar að kúnni var snuðaður um afslátt

Viðskiptavinur Nettó svikinn um afslátt á gamlársdag. Neytendasamtökin hvetja landsmenn til að leita réttar síns þegar brotið er á þeim.

Neytandi segir farir sínar ekki sléttar eftir síðustu matarkaup nýliðins árs í Nettó á Granda. Hann keypti veisluföng á gamlársdag fyrir áramótin fyrir um 30.000 krónur. Á kassa framvísaði hann rafrænu KEA-korti í afsláttarskyni. Starfsmaður skannaði síma kúnnans en neytandinn veitti því athygli þegar hann framvísaði greiðslukorti að enginn afsláttur hafði verið gefinn.

Neytandinn gerði athugasemd og vitnaði í auglýsingar frá Samkaupum sem heita neytendum tveggja prósenta afslætti með notkun KEA-kortsins. Yfirmaður var kallaður til. Virtist að sögn neytandans koma fram í samræðum starfsmannanna að afsláttartakki í tölvubúnaði væri bilaður og hefði svo verið um skeið. Þegar neytandinn spurði hvort málinu lyki þar með af hálfu búðarinnar var honum kurteislega bent á að ekki væri um mikinn skaða að ræða, aðeins 600 krónur.

Atvikið spyr spurninga um hvort fleiri kúnnar hafi verið sviknir um afslátt á mesta neyslutíma ársins.

„Ef verslun auglýsir afslátt verður hún að standa við afsláttinn,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

„Það eru mjög skrýtin viðbrögð ef bent var á að aðeins hefðu sparast um 600 krónur. Þeim ber að veita afsláttinn, það verður að standa við loforð. Í sporum neytandans myndi ég leita til höfuðstöðva Samkaupa. Við hjá Neytendasamtökunum  aðstoðum líka við mál af þessu tagi,“ segir Breki sem telur prinsippið skipta meira máli en upphæð fjárhæða.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, hafði ekki heyrt af málinu þegar Samstöðin leitaði viðbragða verslunarkeðjunnar. Gunnur segir líklegra að um misskilning hafi verið að ræða en bilun. Alls reki Samkaup 65 búðir út um allt land, tryggðaviðskiptum sem byggi á afsláttarkjörum hafi vaxið fiskur um hrygg. Gunnur bendir kúnnanum svikna á að hafa samband við Samkaup og verði honum þá bættur skaðinn.

„Við hömum þessi mistök,“ segir Gunnur og telur að um óhappatilviljun hafi verið að ræða.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí