Ragnar Stefánsson einn kunnasti jarðskjálftafræðingur þjóðarinnar, segir um skjálftann sem varð í morgun og mældist um 4,5 á Richter, að óvíst sé hvort hræringarnar boði eldgos. Hins vegar sé nú víðfeðm hreyfing í gangi undir yfirborði jarðar. Spennulosun hafi hingað til mest verið nálægt Grindavík og þar norður af en það gæti átt eftir að breytast.
Hreyfing á öllum Reykjanesskaganum
„Það er hreyfing á öllum skaganum þótt útrásin hafi aðeins verið á staðbundnu svæði til þessa,“ segir Ragnar í samtali við Samstöðina. Hann segir að umrotin í morgun séu dæmi um eðlilegt framhald af því sem verið hefur. „Skjálftinn þarf ekki að vera byrjun á neinu sérstöku , en það reynir víða á skagann um þessar mundir.“ Þó nokkrar líkur eru á að hræringarnar færist til austurs að sögn Ragnars. „Og þá hefur maður mestar áhyggjur af svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla,“ segir hann. „Þar gætu jarðskjálftar orðið allt að 6,5 og þá myndu Reykvíkingar heldur betur finna fyrir því, enda stutt í efstu byggðir.“

Umbrotin varða með öðrum orðum miklu fleira en eldgosahættu í grennd við Grindavík þótt eldgosin séu það sem við höfum helst séð hingað til. Stundum heyrist í umræðunni hvort íbúar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum ættu að taka sig upp vegna þess skeiðs sem hafið er og viðbúið er að marki daglegt líf næstu áratugi. Ragnar segir að Íslendingar búi þar sem þeir vilji búa. Aðalútþenslusvæðið nú sé Selfoss en þar sé töluverð hætta á miklum skjálftum nálægt. Þeir sem vilji flytja norður eða vestur eigi á hættu snjóflóð eða önnur jarðskjálftasvæði.