Stjórnendur RÚV hafa fundið fyrirkomulag þar sem þeir komast nánast alveg hjá því að þurfa að taka sjálfir afstöðu gagnvart því hvort Ísland ætti að sniðganga Eurovision vegna þátttöku Ísrael. Sú ábyrgð er nú komin á herðar sigurvegara Söngvakeppninnar. Það má því segja að Söngvakeppnin verði því hálfgerð þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland sniðgangi keppnina í ár.
Fyrr í dag tilkynnti Stefán Eiríksson útvarpsstjóri að lokaákvörðun um þátttöku verði tekin að lokinni Söngvakeppninni. Það verði gert í samráði við sigurvegarann, segir á RÚV, en af samhengi má skilja það svo að sigurvegarinn ráði. Í frétt RÚV kemur nokkuð skýrt fram að þetta sé gert til að öll ábyrgð á mögulega umdeildri ákvörðun verði tekin af einhverjum sem starfar ekki í Efstaleiti. Þar segir:
„Aðspurðir um pressu á sigurvegara Söngvakeppninnar, að taka ákvörðun um þátttöku í Eurovision eða ekki, sögðu þeir að það sé pressa á öllum. Mikilvægt sé þó að undirstrika að það er ekki RÚV sem mótar utanríkisstefnu og þar af síður mögulegur keppandi Íslands í Eurovision.“
Hvað sem þessu líður þá verður lokaákvörðun um hvort Ísland sniðgangi Eurovison vegna þátttöku Ísrael ekki tekin fyrr en um miðjan mars, þegar Söngvakeppninni lýkur.