Björn Leví efins um tilgang varnargarðanna við Grindavík 

Náttúruhamfarir 6. feb 2024

„Þegar allt kemur til alls þá þýðir ekki að reyna að blekkja sig með því að það verði hægt að búa þarna aftur í tiltölulega fjarlægri framtíð,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata um Grindavíkurbæ. Það gerir hann í umræðum á Facebook-síðu sinni þar sem hann veltir fyrir sér tilgangi varnargarðanna sem byggðir voru upp við bæinn, til að verja hann og innviði fyrir hraunrennsli. 

Í færslunni leggur Björn Leví út af frétt Morgunblaðsins þar sem segir að án varnargarðanna hefði hraun runnið yfir fleiri hús í Grindavík, sem og að ógjörningur hefði verið að verja Grindavíkurveg og lagnir sem við veginn liggja. 

„Já, fleiri hús hefðu brunnið ef ekki væri fyrir varnargarðanna. En hefur einhver pælt í spurningunni að þessi hús séu hvort eð er ónýt núna? Varla er hægt að búa í húsum þar sem hraun getur runnið,“ skrifar Björn Leví. 

Í umræðum um færslu Björns er beint á að þegar uppbygging varnargarðanna var ákveðin, og hófst, hafi ríkt öllu meiri óvissa um stöðuna. Í Grindavík hafi fólk átt sínar eignir, ekki bara húseignir heldur innbú einnig. Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata bendir þannig á að ekki hafi verið nægar forsendur til staðar til að leggja það kalda mat á stöðuna að ekki bæri að reyna að verja Grindavík með varnargörðum. Vonandi verði hægt að flytja til baka í bæinn síðar meir. 

Sjónarmið sem mun eldast illa

Í svari við athugasemd Dóru segir Björn Leví að færsla hans sé sett fram með allri samúð fyrir aðstæðum fólks í Grindavík. Hins vegar dugi ekki að blekkja sig á því að hægt verði að búa í bænum í fjarlægri framtíð. „Ég veit ekki hversu fjarlægri en ég myndi giska á svo fjarlægri að það sé ekki raunhæft fyrir fólk að gera ráð fyrir því næsta áratuginn.“

Björn viðurkennir að um óábyrga ágiskun sé að ræða en það kæmi honum ekki á óvart ef svo væri að Grindavík teldist óbyggileg í það minnsta í þennan tíma. „Spurning hvað stjórnvöld þora að segja af eða á um það og hversu lengi þau ætla að láta þetta liggja á milli hluta.“

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og vara borgarfulltrúi Vinstri grænna segir hins vegar að hann telji að uppbygging varnargarðanna hljóti að teljast einhverjar merkustu tilraunir sem gerðar hafi verið lengi. „Gleymum því ekki að fyrir 3 árum þótti sú hugmynd að tala um að hrófla upp varnargörðum gegn hraunflóði vera langsótt og hæpin. Núna höfum við öðlast gríðarmikla þekkingu á skömmum tíma sem mun skipta ofboðslega miklu máli þegar og ef eldvirknin færist nær höfuðborgarsvæðinu t.d.

Mér þætti það til marks um mikla skammsýni að líta svo á að eina mikilvægi þessara varnargarða felist í því hvort þeir hafi forðað e-m húsum að lenda undir hrauni og reikna sig svo að því í excel-skjali að betra hefði verið að sleppa því. Það held ég að sé sjónarmið sem muni eldast ansi illa.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí