Luiz Inácio Lula da Silva Brasilíuforseti segir árásarstríð Ísraela á Gaza-ströndinni vera þjóðarmorð. Það sagði forsetinn í ávarpi á fundi Afríkubandalagsins í höfuðborg Eþíópíu, Addis Ababa, í gær. Ísraelsk stjórnvöld hafa brugðist við með því að kalla sendiherra Brasilíu til fundar vegna ummælanna, sem sögð eru „skammarleg og alvarleg“.
„Það sem er verið að gera Palestínumönnum á Gaza-ströndinni á sér enga hliðstæðu í sögunni. Reyndar, hið sama gerðist þegar Hitler ákvað að myrða gyðingana,“ sagði da Silva í ávarpi sínu.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels brást við orðum da Lula á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, og sagði að forsetinn væri með orðum sínum að gera lítið úr helförinni og skaða gyðinga, sem og að ráðast að rétti Ísraela til að verja sig. Það að „bera Ísrael saman við helför nasista og Hitler væri að fara yfir línuna“.
„Ísrael berst til að verja sig og til að tryggja framtíð sína þar til fullnaðarsigur vinnst og samhliða fer Ísrael að alþjóðalögum,“ bætti Netanyahu við.