Byssurnar verða að þagna – „Hvers konar heimi lifum við í?“

Gaza-ströndin er orðin að sviðinni jörð þar sem ómanneskjulegt ástand ríkir alls staðar hvað varðar heilbrigði og mannúð. Stór hluti landssvæðisins sjálfs hefur verið gjör eyðilagður og aðstæður fara versnandi dag  frá degi. Hátt í 30 þúsund Palestínumenn eru látnir, tugþúsundi sárir og ótölulegs fjölda er saknað. „Gaza er orðið dauðasvæði,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, á blaðamannafundi í Genf í gær. 

Alvarleg vannæring hefur aukist með dramatískum hætti síðan árásarstríð Ísraela hófst 7. október. Á sumum svæðum þjást yfir 15 prósent fólks af alvarlegri vannæringu og hlutfallið mun bara aukast eftir því sem stríðið dregst á langinn og komið er í veg fyrir nægjanlega neyðaraðstoð, sagði Ghebreyesus einnig. Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hefur gefist upp á að koma neyðaraðstoð til norðurhluta Gaza sökum þess að hvorki er hægt að tryggja öryggi hjálparstarfsfólks né öryggi þeirra sem reynt er að aðstoða. 

Stríðið hefur tekið mikinn toll af hjálparstarfsfólki en hundruð þess hafa verið drepin. Ísraelar gerðu á þriðjudagskvöldið sprengjuárás á eina af starfsstöðvum Lækna án landamæra, með þeim afleiðingum að starfsfólk særðist og fjölskyldumeðlimir þess létust. 

„Hvers konar heimur er það sem við lifum í þegar heilbrigðisstarfsfólk á á hættu að vera sprengt í loft upp á meðan það vinnur að því að bjarga lífum? Hvers konar heimi lifum við í, þar sem þarf að loka sjúkrahúsum sökum þess að þar er ekkert rafmagn né lyf til að bjarga sjúklingum? Hvaða heimi lifum við í, þar sem fólk er svelt og án vatns, og fólk sem ekki einu sinni getur gengið fær ekki umönnun?“ sagði Ghebreyesus á blaðamannafundinum. Hann ítrekaði að vopnahlé yrði tafarlaust að komast á, að gíslum yrði að sleppa og óhindruð neyðaraðstoð yrði að berast. Byssurnar yrðu að þagna. 

Síðustu daga hafa heilbrigðisstarfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna og aðstoðarmenn farið fjölmarga leiðangra á Nasser sjúkrahúsið í Khan Yonis til að flytja á brott alvarlega veika sjúklinga, þar á meðal börn. Engin gjörgæsludeild er starfhæf á spítalanum og raunar eru fæstar deildir hans starfhæfar. 

Um 130 sjúklingar og 15 læknar og hjúkrunarfræðingar eru enn á Nasser sjúkrahúsinu, í miðjunni á áframhaldandi hernaðaraðgerðum Ísraela, rafmagnslausir, án rennandi vatns og lífsnauðsynleg lyf eru á þrotum. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí