Gervihnattamyndir sýna gríðarlegar framkvæmdir Egypta meðfram landamærunum að suðurhluta Gaza. Jarðýtum og öðrum jarðvinnutækjum er þar beitt til að hreinsa ríflega 20 ferkílómetra ferkantað svæði. Þá er verið að reisa margra kílómetra langan, fimm metra háan vegg meðfram landamærunum við umrætt svæði. Talið er líklegt að Egyptar séu með þessu að undirbúa svæði til að reisa flóttamannabúðir fyrir Palestínumenn sem muni flýja yfir landamærin þegar og ef Ísraelar ráðast inn í borgina Rafah af landi.
Sínaí mannréttindastofnunin hefur greint frá þessu en stofnunin aflaði gervihnattamynda sem sýna framkvæmdirnar. Yfirvöld í Kaíro, höfuðborg Egyptalands, hafa þegar aukið verulega við viðveru herliðs á landamærunum að Gaza með brynvörðum farartækjum og tugum skriðdreka. Egyptar óttast að flóðbylgja flóttafólks yfir landamærin muni kollvarpa jafnvægi á Sínaí-skaganum, sem er nógu viðkvæmt fyrir. Þar börðust Egyptar í áratug við íslamska uppreisnarmenn.
Þá vilja Egyptar samkvæmt heimildum erlendra miðla ekki heldur að Palestínumenn flýji unnvörpum inn á Sínaí-skagann af pólitískum ástæðum. Þeir vilji ekki verða samsekir í því sem Abdel Fatah El-Sisi forseti Egyptalands lýsir sem varanlegu brotthvarfi Palestínumanna frá Gaza, þjóðernishreinsun svæðisins.