Eins og Samstöðin greindi frá í morgun fór hjáveitulögn fyrir heitt vatn meðfram Njarðvíkuræðinni í sundur undir miðju hrauni í gærkvöld. Hún flytur því ekkert heitt vatn lengur til Reykjanesbæjar. Marga daga gæti tekið að koma á heitu vatni þar sem ófært er að gera við lögnina.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir ekkert annað en kjánaskap að verja ekki grunnlögnina. Þetta segir Kristján í færslu á Facebook. „Að reisa varnargarða um orkuver en að verja ekki grunnlögnina frá orkuverinu eru ekkert annað en kjánaskapur… frábært að hafa orkuverið en það er hræðilegt að geta varla notað það. Rafmagn dugir ekki fyrir Reykjanesið og því er staðan orðin verulega slæm. Vatnslagnir frjósa og tjónið sem af því hlýst getur orðið mikið. Nú ætti varðskip að vera komið á svæðið til að framleiða rafmagn inn á kerfið og færanlegar rafstöðvar. Hvar eru innviðirnir???“
Víða er orðið rafmagnslaust á Reykjanesinu en áður hefur verið greint frá því að dreifikerfi HS Veitna ráði illa við álagið sem skapast hefur.
„Það er ekki hægt að segja það nægilega oft hve mikilvægt það er fyrir rafkerfið á Suðurnesjum að fara sparlega með rafmagnið. Það mun skipta sköpum fyrir næstu daga,“ sögðu Almannavarnir í gær.