Mótmæli grískra bænda lömuðu Aþenu, höfuðborg Grikklands, í gær en tugir þúsunda bænda söfnuðust saman til mótmæla framan við gríska þingið. Margir þeirra komu akandi á dráttarvélum sínum. Sýndu bændur reiði sína vegna nýlegra yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um að engan frekari stuðning við bændur væri að hafa úr þeirri átt.
Grískir bændur kvarta undan erlendri samkeppni og þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að lækka verð á landbúnaðarafurðum. Þeir krefjast þess þá að fá tjón sem varð á uppskeru þeirra í flóðum í landinu í september síðastliðnum að fullu bætt.
Forsætisráðherrann gríski, Kyriakos Mitsotakis, bauð fram stuðning til handa bændum í síðustu viku, í formi þess að orkureikningar yrðu lækkaðir næsta áratuginn. Það tilboð dró þó lítt úr reiði bænda og kom ekki í veg fyrir að þeir streymdu til höfuðborgarinnar til mótmæla.
Verðbólga í Grikklandi er há, og ódýrar landnúnaðarafurðir innfluttar frá ríkjum utan Evrópusambandsins hafa þrengt að bændum.