Hraun er runnið yfir heitavatnslögnina, svokallaða Njarðvíkuræð fyrir vatn frá Svartsengi að Fitjum í Reykjanesbæ.
Atburðarásin er hraðari en nokkur sá fyrir eftir því sem fram kemur hjá Almannavörnum. Horfir í alvarlegan skortu á heitu vatni, jafnvel dögum saman, meðal íbúa á fjölmennum svæðum Suðurnesja.
Mikinn strók leggur frá lögninni. Fréttamönnum á svæðinu hefur verið vísað burt vegna gasmengunar.
Almannavarnir hvetja íbúa á Reykjanesi að bíða með að hefja rafkyndingu eins lengi og hægt er. Íbúar og fyrirtæki eru beðnir um að lækka í hitakerfum í húsum sínum og ekki nota heitt vatn til böðunar í sturtu, baði eða heitum pottum. Er það gert til að spara heitt vatn. Mikilvægt er að allir leggist á eitt.
Heitavatnslaust gæti orðið í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum.
Í markvissum sparnaði endast miðlunartankar væntanlega í 6 til 12 klukkustundir. Miðað við hefðbundna daglega notkun endast tankarnir í 3 til 6 klukkustundir.
Tímalengd heitavatnsleysisins er óljós á þessari stundu, segja Almannavarnir. Unnið er hörðum höndum að því að koma bráðabirgðalausn í gagnið.
Mynd: Víkurfréttir