Ísraelskir hermenn skutu á palestínska borgara og beittu hvellsprengjum og táragasi í hernaðaraðgerðum á herteknum Vesturbakkanum í gær og nótt. Fjöldi fólks var handtekinn og eigur þess ýmist gerðar upptækar eða þær eyðilagðar. Mannúðarsamtök greina frá því að Ísraelar noti hörmungarnar á Gaza sem skálkaskjól til að breiða yfir frekari hernaðaraaðgerðir á herteknu svæðunum á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem.
Ísrelar hafa handtekið yfir 7.000 Palestínumenn á hertekna svæðinu á Vesturbakkanum síðan þeir hófu árásarstríð sitt á Gaza-ströndinni 7. október. Þar af eru 440 börn og 220 konur. Þá hafa 53 blaðamenn verið handteknir við fréttaflutning af framferði Ísraela. Af þessum fjölda hafa að minnsta kosti átta Palestínumenn látist í haldi Ísraela.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannréttindasamtaka palestínskra mannréttindasamtaka. Í skýrlsunni er sagt að um sé að ræða skipulagða herferð og henni hafi fylgt aukin og víðtæk brot á réttindum hinna handteknu. Þar sé meðal annars um að ræða ofbeldi á föngum, hótanir og hótanir gegn fjölskyldumeðlimum hinna handteknu. Þá hafa verðmæti og eignir verið gerðar uppteknar í miklu mæli auk þess sem heimili hafi verið eyðilögð.
Í lok árs voru yfir 9.000 Palestínumenn í ísraelskum fangelsum, en þær tölur ná ekki til Palestínumanna sem ísraelski herinn hefur tekið höndum á Gaza-svæðinu.
Ísraelskir hermenn hafa ráðist á fjölmörg svæði á Vesturbakkanum síðasta sólarhringinn, þar á meðal í borgunum Ramallah og Nablus. Þessum aðgerðum Ísraela hafa fylgt fjöldahandtökur og eyðilegging . Hermenn skutu að palestínskum borgurum og beittu hvellsprengjum og táragasi. Í Hebron voru fjórir handteknir, þar á meðal maður sem sleppt hafði verið fyrir nokkrum dögum eftir að hafa verið í haldi Ísraela í tíu ár.
Fjöldi ísraelskra landránsmanna á Vesturbakkanum jókst um þrjú prósent á síðasta ári samkvæmt gögnum frá ísraelsku ríkisstjórninni. Í lok árs höfðu 517 þúsund landránsmenn tekið sér búsetu á svæðinu. Því er spáð að þeim muni fjölga enn frekar á þessu ári.