Ísraelski gerði í morgun stórskotaliðsárás á Nasser sjúkrahúsið í borginni Khan Younis á Gaza-ströndinni. Skriðdrekum var beitt og sprengjum skotið á bæklunardeild sjúkrahússins með þeim afleiðingum að einn lést og fjöldi annarra er alvarlega særður.
Palestínumenn hafa flúið sjúkrahúsið undir skothríð leyniskytta frá því á þriðjudaginn, eftir að ísraelski herinn fyrirskipaði rýmingu þess. Heilbrigðisráðuneytið á Gaza-ströndinni greindi frá því að leyniskyttur ísraelshers hefðu skotið á og myrt þrjár manneskjur við sjúkrahúsið á þriðjudag. Sama dag myrtu ísraelskir hermenn fanga sem þeir höfðu sjálfir sent í járnum inn í sjúkrahúsið til að tilkynna um að rýma ætti byggingar þess.
Læknar án landamæra hafa fordæmt aðgerðir ísraelska hersins og skipanir um að rýma sjúkrahúsið. Þá er greint frá því að fulltrúar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar hafi ekki getað komist að sjúkrahúsinu í hálfan mánuð þrátt fyrir tilraunir þar til.
Nasser sjúkrahúsið er stærsta heilbrigðisstofnunin á Gaza-ströndinni sem enn er starfandi, og eitt af örfáum sjúkrahúsum sem geta veitt særðum og sjúkum einhverja aðstoð. Staðan þar er hins vegar hörmuleg, lækningatæki hafa skemmst í árásum Ísraela, birgðageymslur hafa verið sprengdar upp, lyf eru uppurin og súrefni sömuleiðis. Samkvæmt hjúkrunarfræðingnum Mohammed al-Astal sem fréttastöðin Al Jazeera ræddi við er allur matur á sjúkrahúsinu þorrinn. Hið sama á við um vatnsbirgðir þess.
Ísraelar hafa setið um sjúkrahúsið svo vikum skiptir og halda því fram að Hamas-liðar noti það fyrir bækistöð og haldi þar gíslum. Engin óháð heimild hefur getað staðfest þær staðhæfingar. Á ellefta þúsund manns eru í úlfaklemmu á sjúkrahúsinu, um 300 heilbrigðisstarfsmenn, 450 sjúklingar og um 10 þúsund flóttamenn sem leitað hafa skjóls á sjúkrahúsinu.