Kaþólska kirkjan í Póllandi sakar ríkisstjórn landsins um mannréttindabrot vegna áætlanna um að draga úr kristinfræðukennslu í skólum. Segja kirkjunnar menn að með því sé hætta á hnignandi siðferði og að pólsk menning beri skarðan hlut frá borði. Gagnrýnendur kirkjunnar gefa lítið fyrir þær röksemdir og benda á að að ekki hafi gætt mikils siðferðis í viðbrögðum kirkjunnar við ásökunum um kynferðisbrot kirkjunnar þjóna gegn börnum í Póllandi.
Kirkjan gagnrýnir einnig þær fyrirætlanir að einkunnir úr kristinfræðikennslu verði ekki taldar inn í meðaleinkunn né heldur að þær birtist á einkunnaskjali. Auk þess er kirkjan mótfallin því að kristinfræðikennsla verði skipulögð þannig að hún fari aðeins fram í fyrstu og síðustu kennslustundum hvers dags.
Nýr menntamálaráðherra Póllands, Barbara Nowacka, kynnti fyrirhugaðar breytingar fyrst í desember, skömmu eftir að hún settist í ráðherrastól. Kaþólska kirkjan kallaði þá eftir samráði um hverjar þær breytingar sem fyrirhugaðar væru.
Kristinfræðinám er valkvætt í pólskum skólum en hins vegar sækja all flestir nemendur tímana. Skólar kosta kennsluna en kaþólska kirkjan stýrir hins vegar námsefninu og útvegar kennara.
Segja að biskupinn ráði
Nowacka ráðherra hefur haldið því á lofti að tveggja klukkustunda vikulegt kristinfræðinám sé óhóflegt í ljósi þess að það er meira en nemendum er boðið upp á í ýmsum öðrum greinum. Því hyggst hún draga úr kennslunni niður í eina klukkustund á viku. Ef af verður munu breytingarna taka gildi við upphaf skólaárs í haust.
Kaþólska kirkjan sendi í síðustu viku frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af fyrirætlunumum og sagði kristinfræðinám í skólum grundvallar mannréttindi. Námið hefði þá mikið menningarlegt gildi þar sem menning Pólverja byggði á kristnum rótum. Sömuleiðis væri hætta á siðferðisbresti í landinu yrði af áætlununum. Allar breytingar yrði að gera í samráði við kirkjuna og kaþólski biskupinn í Pólandi yrði að fallast á fækkun kennslustunda. Þá myndi niðurskurðurinn þýða að „þúsundir“ kristinfræðikennara myndu missa atvinnu sína.
Skólaárið 2021 til 2022 sóttu yfir 80 prósent leik- og grunnskólanemenda kristinfræðitíma þrátt fyrir að þeir væru valkvæðir. Síðustu ár hefur hins vegar dregið úr aðsókn í kennsluna, einkum í borgum og stærri bæjum. Árið 2022 völdu aðeins 29 prósent framhaldsskólanema í höfuðborginni Varsjá að sækja kristinfræðitíma.
Gagnrýnendur vísa til brota kirkjunnar manna
Łukasz Kohut, Evrópuþingmaður sósíaldemókrataflokksin Nýja vinstrisins, gagnrýndi harðlega þau rök kirkjunnar manna að niðurskurður í kristinfræðikennslu væri siðferðislega hættulegur og ógn við pólska menningu. Kirkjan hefði haldið því á lofti að kristinfræðikennsla innrætti gildi eins og náungakærleik, mannkærleik, þörfina á réttlæti, umburðarlyndi og samkennd. „Með öðrum orðum, allt sem ekki var til staðar þegar kaþólska kirkjan í Póllandi lagði fram skýrslu sína um barnaníð presta sinna,“ sagði Kohut.
Þar vísaði hann til skýrslu frá árinu 2021 þar sem kom meðal annars fram að frá júlímánuði 2018 til ársloka 2020 hafi kaþólsku kirkjunni borist jafnmargar tilkynningar um kynferðisbrot presta gegn börnum og borist höfðu til samans í 28 ár þar á undan.