Svo virðist sem aðdragandi eldgossins í morgun hafi aðeins verið um 30 mínútur.
Vísindamenn höfðu varað við að fyrirvarinn gæti orðið styttri en áður. Hefur það nú gengið eftir og ítrekar mikilvægi rýminga og öryggis.
Skjálftavirkni hófst um 05.35. Gosið braust út hálftíma síðar. Trillusjómaður segist hafa orðið var við einn skjálfta úti á hafinu skammt frá strönd landsins. Síðan braust eldur upp og naut hann óvæntrar birtu við aðgerð á fiski, samkvæmt Rúv.
Ein stærsta spurningin er hvaða stefnu hraunið tekur, hvort húsin í Grindavík eru í hættu eða varnargarðar við Svartsengi.
Hraunið virðist ekki ógna innviðum sem stendur að talið er eftir því sem bæjarstjórinn í Grindavík, Fannar Jónsson, lýsti í samtali við Rúv. Hann segir um „háalvarlegan atburð“ að ræða. Virknin er á svipuðum slóðum og síðast þegar gaus. Hann telur ólíklegt að nokkur starfsemi verði í bænum á næstunni hvað þá búseta við svo búið.
Sprungan er frá Sundhnúk, hún er um 3ja kílómetra löng og ná eldstrókarnir upp í 80 metra hæð.
Myndina tók Halldór Guðmundsson úr Breiðholtinu og sýnir hún nánd viðburða við höfuðborgina, þótt fókusinn sé fyrst og fremst á högum Grindvíkinga sem stendur.