Strax og hamfarirnar í Grindavík byrjuðu í haust þá fóru að heyrast kunnugleg orð, oftast frá stjórnmálamönnum, um að við Íslendingar værum góð í því að standa saman þegar á móti blæs. Allir myndu leggjast á eitt til að aðstoða bæjarbúa, nú á vergangi, þar til þeir væru búnir að koma undir sig fótunum að nýju. Sumir töluðu á þeim nótum að engar greiðslur frá Grindvíkingum yrðu samþykktar á meðan það versta stæði yfir, enda vofir yfir þeim öllum enn mikil fjárhagsleg óvissa.
Það verður að segjast að þetta hefur ekki reynst alveg rétt. Kannski átti þetta einu sinni við um Ísland, en varla lengur. Lífeyrissjóðir börðust af mikilli hörku gegn því að Grindvíkingar fengju hið minnsta skjól undan rándýrum fasteignalánum. Það virtist ekkert hreyfa við stjórnendum lífeyrissjóða, svo sem Árna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gildis lífeyrissjóðs. Skipti þá engu að lánin væru vegna fasteigna sem íbúum er beinlínis bannað að koma nálægt. Það var ekki fyrr en fór að gjósa við bæinn sjálfan sem það fékkst í gegn að Grindvíkingar myndu sleppa við vextina.
Því fer fjarri lagi að Grindvíkingar hafi sloppið við reikninga. „Það kostar að reka hús sem ekki má nota! ,“ segir Björn Birgisson á Facebook en hann greinir frá því að reikningar hafi frekar hækkað en lækkað og í dag hafi hann fengið einn upp á 33.561 krónur. Sá var frá HS Veitum, sem voru einkavæddar líkt og frægt er orðið. Stærstu eigendur þeirra, utan Reykjanesbæjar, ættu að vera Grindvíkingum kunnulegir. Þeir eru: Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Almenni lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður og Ursus, fjárfestingafélag Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar.
HS Veitur högnuðust um 806 milljónir í fyrra.
Björn heldur svo áfram og skrifar: „Þetta höfum við greitt HS Veitum frá miðjum nóvember til dagsins í dag vegna rauða Spýtukofans í Grindavík.
*********
29,128 – 13. nóvember
20,562 – 12. desember
44,416 – 10. janúar
33,561 – 14. febrúar
*********
Kannski er húsið heilt fyrir vikið, en hvaða máli skiptir það þegar upp er staðið?“