Undanfarnar vikur hefur Morgunblaðið fjallað ítarlega og ítrekað um Fossvogsbrú, en kostnaður vegna þessarar ókláruðu brúar hefur rokið upp síðustu mánuði. Nú er gert ráð fyrir því að brúin muni á endanum kosta tæplega 9 milljarða króna. Sem er nokkuð meira en var áætlað í upphafi. Þá héldu menn að hún myndi kosta ríflega tvo milljarða.
Ýmsir Sjálfstæðismenn hafi svo notað tækifærið og lýst yfir áhyggjum sínum opinberlega vegna þessa. Þar á meðal eru Jón Gunnarsson og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, auk Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi. Það má því vel segja að þessi ókláraða brú hafi fengið heldur neikvæða ásýnd í huga sumra vegna þessa.
En það á þó tvímælalaust ekki við um rithöfundinn Andra Snæ Magnason. Hann telur að þessi brú muni bylta samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. „Er ekki nokkuð ljóst að Fossvogsbrú sem færir Vesturbæ Kópavogs að minnsta kosti 5 km nær miðbæ Reykjavíkur er ein mest spennandi breyting á samgöngum höfuðborgarsvæðisins í langan tíma? Hvort sem flugvöllur fer eða ekki,“ skrifar Andri Snær á Facebook og birtir myndina sem sjá má hér fyrir neðan máli sínu til stuðnings.