Sanna lýsir hrakförum sínu að taka Strætó í fermingu: „Lengur í strætó en með fjölskyldunni“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir að það hafi verið hægar sagt en gert að ætla að taka strætó á sunnudegi í fermingu. Flestir sem hafa tekið strætó í Reykjavík kannast líklega við lýsingu Sönnu en óhætt er að segja að það hafi ekki tekist án talsverða vandræða að ferðast í Garðabæinn með hjálp almenningsamganga. Sanna dregur þann, nokkuð hófsama, lærdóm af þessu ferðalagi að betur skal ef duga skal hvað varðar strætó.

Hér fyrir neðan má lesa ferðasögu Sönnu í heild sinni.

Strætósaga: Ferð upp í Garðabæ á sunnudegi

Við mæðgur fórum í fermingarveislu síðastliðinn sunnudag og ákváðum að vera samferða. Ég var í Alþýðuhúsinu Vorstjörnu í Bolholti 6 og mamma í Breiðholti.

Þar sem ég var nálægt Suðurlandsbrautinni blasti við að ná vagni númer 17 beint upp í Mjódd en mundi þá að það væri sunnudagur og einhverra hluta vegna gengur 17 ekki á sunnudögum.

Planið var að taka ellefuna frá Lágmúla klukkan 15:48. Ég var mætt snemma á stoppistöðina til öryggis en svo var strætóinn seinn. Mér leiddist ekki á meðan ég beið því ég fylgdist með gæsum reyna að komast yfir umferðargötuna.

En svo var ég stressuð þegar strætóinn lét ekki sjá sig. (Hér skal þó tekið fram að ég bý við mikil forréttindi, er með há laun og get því pantað og greitt fyrir leigubíl ef allt skyldi klikka varðandi strætótengingar. Ekki að ég sé mikið að gera það en þarna hef ég valmöguleika sem aðrir hafa ekki).

Stressið var farið að ná mér því planið var að vera mætt 16:01 upp í Mjódd og ná leið 24 frá Mjóddinni klukkan 16:09. Þegar ég var að skipuleggja þessa ferð fyrr um daginn hugsaði ég með mér að þó svo að ellefan yrði smá sein þá væri það í lagi því ég hefði þarna auka 8 mínútur til öryggis. En svo var vagninn 8 mínútum of seinn.

Þegar ellefan nálgaðist Mjóddina, var ég tilbúin til þess að hlaupa út og reyna að ná vagni númer 24, sem ég rétt svo náði. Svo héldum við mæðgur upp í Garðabæ og planið var að ná vagni númer 23 frá Ásgarði klukkan 16:28, fara út eftir nokkur stopp og rölta á áfangastað.

Við komum upp í Ásgarð á þeirri mínútu sem vagn númer 23 átti að leggja af stað. Við héldum að við værum á síðustu stundu en skoðuðum þá tímatöfluna nánar og komumst að því að við lásum ekki rétt út úr henni þegar ferðin var undirbúin. Við héldum nefnilega að við ættum að ná vagninum 16:28 en málið er að eftir hádegi breytist tímataflan slatta.

Þannig að í staðinn fyrir að leggja af stað ’28 og ’58, þá fer vagninn ’17 og ’47 eftir hádegi. Við biðum því á Aktu Taktu í sirka 20 mínútur, ekki alveg nægur tími til að panta hamborgaratilboð en nægur tími til þess að pústa aðeins. Þetta var svo sem fínt því annars hefðum við mætt of snemma í veisluna.

Klukkan 16:47 lögðum við af stað upp á Garðholtsveg í vagni nr. 23, sem var  krúttlegur lítill vagn (svona vagnar myndu virka vel sem hverfisstrætó t.d. fyrir íbúa vesturbæjar sem þurfa að komast á Granda). Við mæðgur röltum síðan á áfangastað og hittum fjölskylduna í fermingarveislunni.

Til að vera alveg vissar um að festast ekki í Garðabænum, skoðuðum við hversu lengi vagn númer 23 væri á ferðinni. Við sáum merkið P47 og P17 í tímatöflunni, ég veit ekki alveg hvaða tímasetning það á að vera en við nánari athugun vísar það til pöntunarþjónustunnar. Þannig að eftir klukkan 19:47 hættir vagn númer 23 að ganga en það er hægt að panta ferð í gegnum pöntunarþjónustu. Það þarf að hringja a.m.k 30 mínútum fyrir áætlaða brottför skv. tímatöflu.

Þegar við fórum heim tókum við vagn nr. 23 á meðan hann var enn á ferðinni. Frá Ásgarði náðum við vagni númer 24 sem átti að leggja af stað 3 mínútur yfir en fór of snemma af stað. Sem betur fer vorum við mæðgur komnar inn í vagninn en sáum nokkur ungmenni hlaupa í átt að vagninum, sennilega að reyna að ná þessum vagni sem var á undan áætlun.

Allt gekk vel fyrir sig á leiðinni til baka og töluðum við mæðgur um hvað það væri gott að hitta fjölskyldumeðlimi, þyrftum að gera slíkt oftar. Reiknuðum tímann sem fór í þessa ferð og vorum lengur í strætó en að njóta með fjölskyldunni í fermingarveislu. Það var gott að fá þessa strætóreynslu.

Lærdómurinn af þessu er að biðja oftar um far og að það er hægt að laga svo margt varðandi almenningssamgöngur. Ég trúi því að það sé hægt að búa til betra, áreiðanlegra strætókerfi, t.d. strætó sem gengur fram á kvöld um helgar, strætó sem ekur oftar yfir daginn og strætósamgöngur sem bjóða upp á hugguleg biðskýli sem taka vel á móti strætófarþegum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí