Síðan neyðarástandi var lýst yfir á Suðurnesjum vegna heitavatnsskorts sem ógnar heimilum og heilsu íbúa, hafa Almannavarnir gefið út eftirfarandi varnaðarorð:
ÁRÍÐANDI TILKYNNING:
Biðlað er til íbúa Suðurnesja að nota alls ekki meira rafmagn til að hita húsin sín en það sem nemur einum litlum hitablásara.
Sé notað meira rafmagn eða fleiri ofnar er hætta á að skemmdir verði í þeim hverfum. Hverfin eiga þá í hættu á að rafmagn slái þar út og þær skemmdir tekur langan tíma að gera við,“ segir í tilkynningu Almannavarna.
Þá hafa Almannavarnir brýnt íbúa til að sýna meðferð gasofna aðgæslu.
Keflavíkurflugvöllur er orðinn heitavatnslaus. Röskun atvinnulífs veltur á hve langan tíma tekur að setja upp hjáveitukerfi sem kemur aftur á heitu vatni. Hús geta skemmst vegna ástandsins og vinnur veðrið ekki með Suðurnesjafólki, þar sem spáð er kulda næstu daga.
Þá gætu orðið vandamál með rafmagn. Of snemmt er þó að spá fyrir um slíkt, að sögn sérfræðinga sem Samstöðin hefur rætt við en allir viðmælendur eru sammála um að horfurnar séu tvísýnar.