Palestínumenn leggja á flótta frá Rafah – Leyniskyttur myrða fólk við Nasser sjúkrahúsið

Palestínumenn hafa enn lagt á flótta á Gaza-ströndinni undan sprengjuregni og árásum Ísraelshers. Nú er flóttinn hafinn frá borginni Rafah, síðustu borginni á Gaza sem Ísraelar hafa ekki tekið yfir. Hundruð Palestínumanna hafa þegar yfirgefið borgina og haldið út í óvissuna en þeirra bíður hvergi skjól. Um 1,4 milljónir Palestínumanna dvelja í borginni. 

Sprengjum rigndi yfir miðborg Rafah í nótt en Ísraelar undirbúa nú árás á landi á borgina. Mannfall í árásum næturinnar liggur ekki fyrir en það er verulegt. Á sama tíma héldu árásir ísraelshers áfram víðar á Gaza svæðinu. Að minnsta kosti fimm létust í sprengjuárásum á Nuseirat flóttamannabúðirnar um miðbik Gaza strandarinnar. 

Þá myrtu ísraelskar leyniskyttur að sjö Palestínumenn við Nasser sjúkrahúsið í borginni Khan Younis og særðu fjórtán manns, hjúkrunarlið og flóttafólk. Sprengjuárásir Ísraelshers rufu rafmagn til sjúkrahússins sem nú hefur verið í herkví hersins svo vikum skiptir. Tíu ára gömul palestínsk stúlka, Hala Mekdad, lést á gjörgæsludeild sjúkrahússins vegna rafmagnsleysisins. Fjöldi líka liggur á við spítalann og hefur legið um margra daga skeið þar eð of hættulegt er talið að reyna að ná til þeirra.

Á sama tíma eykst ofbeldi á herteknum Vesturbakkanum einnig en Samstöðin greindi frá því í fyrradag að Ísraelar notuðu ástandið á Gaza til að draga athygli frá frekara landráni sínu þar og í Austur-Jerúsalem. Í nótt skutu ísraelskir landránsmenn tvo Palestínumenn, kveiktu í bifreiðum og eyðilögðu eignir Palestínumanna á Vesturbakkanum. Á sama tíma skutu ísraelskir hermenn palestínskan borgara til bana. 

Ísraelsk mannréttindasamtök hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau kalla eftir tafarlausu vopnahléi og því að gíslum verði sleppt. Þau krefjast þess þá að Ísraelsher veiti tafarlausan og óheftan aðgang vyrir mannúðaraðstoð inn á Gaza-ströndina. 

Abdullah II Jórdaníu konungur fundaði með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í gær þar sem þeir ræddu leiðir til að binda enda á árásarstríð Ísraela. Ekki náðist samstaða á milli þjóðarleiðtoganna tveggja en Abbdullah konungur kallaði eftir tafarlausu og ótímabundnu vopnahléi á meðan að Biden lagði áherslu á samkomulags drög um sex vikna vopnahlé. 

Þrátt fyrir mikinn og vaxandi þrýsting á Ísrael er ekkert sem bendir til að forsætisráðherran Benjamin Netanyahu hyggist falla frá áætlunum sínum um að ráðast með landher á Rafah, né heldur að hann hyggist draga úr stríðsátökunum á Gaza yfirleitt. Þingmaður Demókrata á Bandarríkjaþingi, Chris Van Hollen, sagði í þinginu í gær að Ísraelar væru sekir um stríðsglæpi. „Börn á Gaza deyja nú vegna þess að það er vísvitandi komið í veg fyrir matarsendingar. Það er stríðsglæpur. Það er skilgreiningin á stríðsglæp. Og þeir sem standa fyrir því eru stríðsglæpamenn.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí