Sjálfstæðisflokkurinn tók yfir Félag eldri borgara í Reykjavík

„Sigurður Ágúst Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri DAS, var í dag kjörinn nýr formaður Félags eldri borgara í Reykjavík (FEB) á aðalfundi. Fjórir buðu sig fram til formennsku, þar á meðal Sigurbjörg Gísladóttir, fráfarandi varaformaður FEB,“ skrifar Atli Rúnar Halldórsson á Facebook-síðu sína, fyrrum fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Og Atli setur síðan fram fréttaskýringu um yfirtöku Sjálfstæðisflokksins á félaginu:

„Sigurður bauð sig fram viku fyrir aðalfund, þegar framboðsfrestur var að renna út. Hann hlaut 215 atkvæði, Sigurbjörg 130 atkvæði, Borgþór Kjærnested 6 atkvæði og Sverrir Örn Kaaber 3 atkvæði. Tvö atkvæði voru ógild. Atkvæði í formannskjöri greiddu alls 356.

Upphaflega var aðalfundurinn auglýstur í sal félagsheimilis FEB við Stangarhyl en fyrir átta dögum var ákveðið að færa hann í Gullhamra við Grafarholt.

Ekki veitti ekki af því í loftinu lá að kröftuglega yrði smalað til fundar – sem reyndist aldeilis rétt vera.

„Kosningavél íhaldsins fór heldur betur í gang, úthringingar og læti. Þú sérð líka gömul kosningabros taka sig upp á mörgum andlitum núna,“ sagði fundarmaður við mig – áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum. Þá lágu fyrir úrslit í formannskjöri.

Annar viðmælandi úr sömu átt í pólitík sagði að maskínan hefði haldið vel á spöðum undanfarna sólarhringa og nýkjörinn formaður haft kosningastjóra á sínum snærum.

Í framboði til sex sæta í stjórn og varastjórn FEB voru tíu manns og þegar atkvæði höfðu verið talin nú undir kvöld voru úrslit eftirfarandi:

Guðrún Ósk Jakobsdóttir
Elinóra Inga Sigurðardóttir
Kristinn Eiriksson
Ragnar Árnason
Bessí Jóhannsdóttir
Jón Magnússon

Einn sessunautur minn á aðalfundinum gaf mér lítinn miða sem dreift hafði verið í leikfimitíma heldri borgara hjá Fylki í Árbæ í morgun – til þeirra sem svöruðu játandi þegar grennslast var fyrir um hvort þeir hygðust sækja aðalfund FEB. Þar eru sjö nöfn frambjóðenda sem viðtakendum var ráðlagt að kjósa í formanns- og stjórnarkjöri.

Niðurstaða kosninganna hefði jafngilt alslemmu skipuleggjenda smölunarinnar í spilum. Allir kosnir, bæði formannsefnið og allir sex frambjóðendur til stjórnar.

Það rifjast nú upp af gefnu tilefni þegar ég fylgdist sem fréttamaður með landsfundi Alþýðubandalagsins sáluga í Rúgbrauðsgerðinni fyrir margt löngu, mikilli átakasamkomu þar sem tókust á fylkingar með Ólaf Ragnar Grímsson annars vegar og Svavar Gestsson hins vegar fremsta í flokki.

Þá var barist um forystusæti flokksins og ég gat stungið undan miða með nöfnum manna sem fólk úr Svavarsarmi laumaði í lófa eða vasa fundarfólks vegna miðstjórnarkjörs. Því miður er sá miði glataður.

Þetta leynigagn var kallað „lyfseðill“ manna á meðal í Rúgbrauðsgerðinni.

Mynd af lyfseðli dagsins á FEB-fundi fylgir hér með. Býð fundargagnið svo væntanlega Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu um aldur og ævi.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí