Þrír er látnir eftir drónaárásir Rússa á úkraínsku hafnarborgina Odessa við Svartahaf. Að minnsta kosti átta eru særðir. Tvö ár eru í dag síðan Rússar hófu allsherjar árás sína inn í Úkraínu.
Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá innrásinni hefur hvorugum stríðsaðila tekist að ná verulegri framrás í sókn sinni, það er eftir upphaf stríðsins þegar Rússar náðu undir sig nokkru landsvæði. Víglínan hefur því lítt breyst mánuðum saman.
Eins og greint var frá á Samstöðinni hefur trú Evrópubúa á sigur Úkraínu í stríðinu dvínað verulega. Aðeins 10 prósent hafa trú á að Úkraínumenn geti brotið innrásarherinn á bak aftur.
Úkraína reiðir sig nánast algjörlega á hernaðarstuðning Evrópuríkja og Bandaríkjanna. Óvissa ríkir þó um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna þar eð frumvarp um frekari og aukinn stuðning situr fast í fulltrúadeild þingsins þar ytra. Bretar hafa, í tilefni tímamótanna, tilkynnt að þeir muni senda hergögn fyrir 245 milljónir punda til Úkraínu til að styrkja stórskotalið þeirra.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, kom í dag til Kænugarðs vegna tímamótanna. Á samfélagsmiðlinum X sagðist hún fagna ótrúlegri mótspyrnu úkraínsku þjóðarinnar. „Nú, sem aldrei fyrr, stöndum við þétt að baki Úkraínu. Fjárhagslega, efnahagslega, hernaðarlega, móralskt.“