Tyrkneska lögreglan handtók á miðvikudag 67 manns vegna meintra tenglsa þeirra við trúarhreyfingu Fetullah Gülen, sem tyrknesk stjórnvöld hafa ítrekað ásakað um hryðjuverkastarfsemi.
Innanríkisráðherra Tyrklands, Ali Yerlikaya, greindi frá handtökunum á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Handtökurnar fóru fram vítt og breitt um Tyrkland, í fjórtán héruðum.
Að því er ráðherran sagði voru sakirnar sem bornar voru á fólkið meðal annars þær að hafa ætlað sér að lauma sér inn í raðir hers og lögreglu. Þá voru aðrir handteknir eftir nöfn þeirra voru nefnd í yfirheyrslum lögreglu eða við réttarhöld yfir öðrum meintum stuðningsmönnum Gülen. Alls hafa yfir 6.000 manns verið handteknir í viðlíka aðgerðum frá því í júní í fyrra.
Erdogan Tyrklandsforseti hefur haft horn í síðu Gülen og hreyfingar hans um árabil, allt frá árinu 2013. Þá kom upp á yfirborðið spillingarskandall mikill í Tyrklandi, þar sem sakamálarannsókn leiddi í ljós víðtæka spillingu, mútugreiðslur, peningaþvætti og smygl. Fjöldi háttsettra meðlima valdaflokks Erdogans, AKP, voru handteknir, sem og fjölskyldumeðlimir þeirra. Meðal þeirra sem voru til rannsóknar voru synir þriggja ráðherra í tyrknesku stjórninni.
Stjórnvöld brugðust við með því að víkja 350 lögreglumönnum úr starf, þar á meðal yfirmönnum deilda sem rannsökuðu fjármálaglæpi, smygl og skipulagða glæpastarfsemi. Gülen lýsti aðgerðum stjórnvalda sem skandal og verið væri að hreinsa út úr röðum opinberra starfsmanna þá sem ekki færu í einu og öllu eftir línu Erdogans. Erdogan sjálfur, sem þá var forsætisráðherra, lýsti hins vegar spillingarrannsókninni sem byltingartilraun sem að baki stæðu þeir sem væru öfundsjúkir út í velgengni hans og sú byltingartilraun væri alþjóðlegt samsæri, skipulagt af Gülen og hreyfingu hans.
Síðan þá hefur Erdogan lýst Gülen-hreyfinguna hryðjuverkastamtök og hefur hert þumalskrúfurnar jafnt og þétt, einkum eftir misheppnaða valdaránstilraun í Tyrklandi árið 2016 sem hann sakaði Gülen um að standa á bak við. Því hefur Gülen og hreyfing hans hafðneitað og neita því einnig að standa að baki nokkurri hryðjuverkastarfsemi.