Það vill oft gleymast að þó það séu margir skúrkar og mannhatarar í þessum heimi, þá erum hetjurnar ekkert færri. Vandinn er að oft fer mikið minna fyrir þeim. Það sést vel í frásögn sem kona nokkur deilir innan Facebook-hóps íbúa í Grafarvogi. Í stuttu máli þá varð hún á vegi tryllts ökumanns sem ætlaði að ganga í skrokk á henni við Hringtorgið við Langarima. Af frásögn konunnar að dæma þá hefði hæglega getað farið illa ef maður hefði ekki komið skyndilega og . skorist i leikinn.
Konan vildi ólm þakka þessum manni fyrir að hafa verið svo snar í snúningi. En jafn skyndilega og hann kom, þá hvarf hann á brott. „Ég leita að góðhjörtuðum einstaklingi sem kom mér til bjargar í dag eftir að ég lenti í leiðinda atviki á Borgarvegi milli Langarima og Spöng. Eftir að hafa reitt ökumann til reiði í hringtorginu við Langarima veitti hann mér eftirför sem endaði með aftanákeyrslu og að hann veittist að mér með orðum og höndum var það ökumaður sem kom akandi úr andstæðri átt sem stoppaði og skarst í leikinn, sem gerði það að verkum að ökumaðurinn sem ók á mig yfirgaf vettvang. Í allri ringulreiðinni og sjokkinu náði ég ekki að þakka þessum manni fyrir hjálpina og vil ég ef viðkomandi sér þetta koma á framfæri þakklæti til hans. Ég vil einnig þakka öllum vitnum sem gáfu sig fram. Lögreglan var kölluð á staðinn, og málið er nú í þeirra höndum,“ lýsir konan í færslu nú í kvöld.
Nú þegar hafa nokkrir gefið sig fram og sagst hafa orðið vitni að þessu. Enginn hefur þó enn borið kennsl á hetjuna á hringtorginu.