Íslensk stjórnvöld hafa, eftir margra vikna og mánaða þrýsting, brugðist við og hyggjast nú flytja fólk frá Gaza sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi til Íslands. Seint í gærkvöldi komu 72 manns frá Gaza til Kaíró í Egyptalandi, þaðan sem á að flytja það til Íslands.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins. Segir þar að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hafi átt fund með kollega sínum í Ísrael, Israel Katz, fyrir viku til að greiða fyrir afgreiðslu ísraelskra stjórnvalda á nafnalista íslenskra stjórnvalda.
„Sendinefnd utanríkisráðuneytisins hefur undanfarnar vikur unnið að því að greiða fyrir för fólksins og átt í virkum samskiptum við fulltrúa egypskra og ísraelskra stjórnvalda auk fulltrúa annarra ríkja á svæðinu. Sú vinna hefur nú borið tilætlaðan árangur,“ segir í tilkynningunni. Þar segir einnig að engin skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að greiða för fólks sem fær dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar, eins og er tilfellið nú, en í ljósi þeirra „einstöku aðstæðna sem uppi eru á svæðinu var þó ákveðið að leggja í sérstakt verkefni hvað þetta varðar“.
Þær einstöku aðstæður eru þær að yfir 30 þúsund Palestínumenn hafa verið myrtir af ísraelska hernum og yfir 70 þúsund eru sárir. Innviðir á Gaza eru í rúst og hungursneyð vofir yfir íbúum. Um 2,3 milljónir Palestínumanna eru innilokaðar á Gaza-ströndinni.
„Heildarsýn stjórnvalda í útlendingamálum var kynnt nýlega, en þær breytingar skipta ekki síst máli til að tryggja að þessi fordæmalausa aðgerð skapi ekki umframþrýsting á íslensk kerfi,“ er haft eftir utanríkisráðherra í tilkynningunni. Hvað átt er við með þessu er ekki sérstaklega tilgreint frekar. 4.159 manns komu til Íslands í fyrra og sóttu hér um alþjóðlega vernd. Fjöldi fólksins frá Gaza sem nú er á leið til Íslands nemur 1,7 prósentum af þeim fjölda.
Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir er meðal sjálfboðaliða úti í Kaíró sem hafa farið frá Íslandi til að koma fólki með dvalarleyfi á Íslandi út af Gaza og heim til Íslands. Hún skrifar í Facebookfærslu að engin orð nái yfir léttinn og hamingjuna sem fylgi því að vita að vinir hennar og vinkonur á Íslandi fái nú loksins til sín fjölskyldur sínar til Íslands, „þar sem þau þurfa ekki að óttast þess dag og nótt hvort þau séu að fara lifa af næstu klukkustundir og hvenær þau eigi von á næsta matarbita eða vatnssopa.
Það að íslensk stjórnvöld hafi bjargað fólki í gær af Gaza er bein afleiðing þess að íslenskir sjálfboðaliðar sýndu fram á að þetta væri vel mögulegt. Þetta hefði ekki verið hægt án stuðnings almennings, bæði í orðum, gjörðum og millifærslum og saman höfum við tryggt það að þau eigi einhverja framtíð.
Verki okkar hér í Kairó er þó ekki lokið og fer fjármagnið sem safnast hefur í það að koma fleiri dvalarleyfishöfum út og sameina allar þessar fjölskyldur á ný, sem allra fyrst.
Takk Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og María Lilja Ingveldar-Þrastardóttir Kemp fyrir að taka af skarið og knýja fram þessar aðgerðir, takk styrktaraðilar fyrir að gera okkur þetta kleift og takk þið öll sem hafið látið málefni Palestínu ykkur varða síðustu mánuði.
Samtakamátturinn er okkar sterkasta afl.“