Börn deyja úr ofþornun, hungri og vannæringu í sí auknu mæli á Gaza-ströndinni samkvæmt yfirlýsingum fulltrúa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Þau deyja á sjúkrahúsum sem eru rafmagnslausir og matar- og vatnslausir. Enginn hefur upplýsingar um hversu mörg börn deyja utan sjúkrahúsa af völdum vannæringar.
Teymi stofnunarinnar á Gaza greinir frá alvarlegri vannæringu á svæðinu, börnum sem deyja úr sulti, alvarlegum skorti á eldsneyti, mat, lyfjum og lækningabúnaði. Þá eru sjúkrahús á Gaza meira og minna rústir einar, sagði framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus á samfélagsmiðlinum X í gær. Hann biðlaði þar til Ísraela að tryggja örugga og reglulega dreifingu mannúðaraðstoðar á svæðið, og að leggja niður vopn.
Sameinuðu þjóðirnar vara við því að hundruð þúsunda á Gaza standi frammi fyrir hungursneyð. Bandaríkin vörpuðu á laugardaginn matvælum úr lofti á svæðið, sem innihéldu 38 þúsund máltíðir, en engu vatni né lyfjum eða lækningabúnaði. Mannúðarsamtök hafa gagnrýnt aðgerðirnar og segja þær gagnslausar og niðurlægjandi. Richard Gowan, framkvæmdastjóri skrifstofu Alþjóðlegu krísusamtakanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, lýsti fallhlífasendingunum sem tímabundnum plástri, í besta falli.
Á norðurhluta Gaza svelta börn nú til bana og önnur berjast fyrir lífi sínu meðan neyðaraðstoð berst ekki. Palestínska heilbrigðisráðuneytið á Gaza greindi frá því í gær að staðfest væri að í það minnsta 15 börn væru látin af völdum ofþornunar og vannæringar. Á Kamal Adwan sjúkrahúsinu óttast læknar um líf sex barna til viðbótar en þau þjást af vannæringu og magaveiki. Rafalar spítalans eru ógangfærir sökum skorts á eldsneyti, ekkert rafmagn er að hafa, súrefni er uppurið og bjargir starfsfólks litlar sem engar.
Teymi WHO sem heimsótti sjúkrahúsið staðfesta lýsingar ráðuneytisins og greindu frá því að skortur á matvælum þar hefði leitt til dauða tíu barna á sjúkrahúsinu. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur kallað eftir því að brugðist verði tafarlaust við og krafist þess að þeim verði heimilað að fara yfir landamærin inn á Gaza á mörgum tryggum stöðum til að koma þangað hjálpargögnum, koma í veg fyrir hungursneyð og bjarga barnslífum.
Staðan gerir þörfina á að friðarumleitanir, í það minnsta vopnahlésviðræður, beri einhvern árangur enn brýnni. Fundað var um vopnahlé í Kaíró á sunnudaginn en Ísraelar sendu hins vegar ekki fulltrúa til fundarins. Ástæðan var sögð sú að Hamas hefði í engu svarað kröfum Ísraela um að afhenda lista yfir ísraelska gísla samtakanna, lífs og liðna, né heldur hefði Hamas svarað því eða samþykkt hversu marga palestínska fanga ætti að leysa úr haldi úr ísraelskum fangelsum í skiptum fyrir gíslana. Hamas hefur hins vegar lýst því að þeir vilji að varanlegt friðarsamkomulag komist á, áður en samtökin samþykki að sleppa gíslum úr haldi.