Bandaríkin hafa dreift drögum að tillögu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé á Gaza-strönd. Vopnahléið er beintengt við lausn gísla í haldi Hamas-samtakanna. Samtökin hafa ítrekað lýst því að þau hyggist ekki leysa gísla úr haldi nema að til komi vopnahlé til framtíðar. Í drögunum nú er talað um varanlegt vopnahlé.
Antony Blinken utanríkisráðherra greindi frá tillögunni en hann er staddur í Sádí-Arabíu í ferð sinni um Mið-Austurlönd, þar sem hann mun meðal annars sækja Ísrael heim. Bandaríkin hafa í þrígang beitt neitunarvaldi í Öryggisráðinu gegn tillögum er snúa að stríðsrekstrinum, og þar af hefðu tvær haft í för með sér kröfu um tafarlaust vopnahlé. Síðast gerðist það 20. febrúar síðastliðinn.
Síðan þá hafa Bandaríkin unnið að nýrri tillögu þar sem snúið yrði upp á orðalagið „tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum“, sem Bandaríkjunum hugnaðist ekki. Orðalagið sem helst hafði verið til skoðunar af hálfu Bandaríkjanna snerist um sex vikna vopnahlé, sem byggði á því að gíslar í haldi Hamas yrðu látnir lausir. AFP fréttaveitan hefur eftir embættismönnum að lítill stuðningur hafi verið í Öryggisráðinu við slíkri tillögu.
Í nýju drögunum segir, samkvæmt AFP, að lögð sé áhersla á „þörfina fyrir tafarlaust og varanlegt vopnahlé til að vernda borgara borgara beggja aðila, að gera dreifingu nauðsynlegrara neyðaraðstoðar mögulega og lina þjáningar, samhliða lausn gísla sem enn eru í haldi.“
Ekki er búið að setja atkvæðagreiðslu um tillöguna á dagskrá.
Blinken sagði í viðtali við sádí-arabísku fréttaveituna Al Hadath að hann vonaðist til að þjóðirnar sem eiga sæti í Öryggisráðinu myndu styðja tillöguna. Það myndi senda skýr og sterk skilaboð til stríðandi fylkinga. Á sama tíma ítrekaði hann að Bandaríkin stæðu eftir sem áður með Ísraelum og rétti þeirra til að verja sig. Hins vegar, þá yrði örgyggi almennra borgara sem liðu hræðilegar þrautir á Gaza að vega þyngra. Tryggja yrði þeim vernd og neyðaraðstoð, það væri forgangsatriði.