Eiturgufur nú líklega ein helsta ógnin sem fylgir jarðeldunum á Reykjanesi

Eiturgas er orðið stærsta áhyggjuefnið ef jarðeldunum á Reykjanesi linnir ekki.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í fréttaviðtali við Samstöðina.

Hann segir að starfsmenn Bláa lónsins þurfi nú sem fyrst að útvega sér gasmæla og ef eldgosið dregst á langinn gæti loftmengun orðið viðvarandi vandi í byggð í Grindavík.

Þorvaldur var staddur í San Fransico þegar Samstöðin náði tali af honum snemma í morgun. Hann segir vel mögulegt að eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni sem hófst á laugardag og stendur enn yfir muni lognast út af næstu daga. Ef eldgosinu lýkur næstu daga gæti það boðað langt samfellt skeið án nokkurra frekari eldgosa á Reykjanesskaga til lengri tíma.

„Það yrðu mjög jákvæðar fréttir, ég held að margir yrðu því fegnir,“ segir Þorvaldur.

Á meðan þetta gos er í gangi segist Þorvaldur hafa mestar áhyggjur af gaseitrufremur en að varnargarðir láti undan hraunþunga. Hann telur hús í Grindavík ekki í hættu sem stendur.

„En við vitum hvernig vindarnir blása oft á Íslandi á þessum árstíma, oft miklar suðvestanáttir,“ segir hann. „Það þýðir að gasmengun frá gosinu gæti í vaxandi mæli ógnað þeim sem eru við Svartsengi.“

Með því á Þorvaldur við að loftmengun gæti orðið vandamál fyrir starfsfólk og gesti í Bláa lóninu ekki síður en starfsmmenn HS-Orku og aðra sem hafa umsvif í grennd.

„Í Bláa lóninu þurfa menn nú að útvega sér gasmæla,“ segir Þorvaldur ákveðinn og rifjar upp atvik þar sem manneskja þurfti að leita aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna gaseitrunar.

Er um mikið alvörumál að ræða að sögn Þorvaldar og eiturgufur gætu líka orðið helsti vandi Grindvíkinga ef langvarandi eldgos verður að veruleika. Yfirvöld munu þá væntanlega með frekari mannvirkjagerð beina hrauninu út í sjó, skammt frá Grindavík.

„Helstu áhrifin yrðu sennilega staðbundin en þau gætu orðið grafalvarleg,“ segir Þorvaldur og rökstyður mál sitt. „Þegar hraun rennur út í sjó verða efnahvörf. Þá getur myndast mjög hættuleg klóríð lofttegund.“

Þorvaldur telur með öðrum orðum að áhrif gufustróka og gjósku muni ekki valda alvarlegri röskun á starfsemi Keflavíkurflugvallar eða hafa mikil áhrif á íbúa Reykjanesbæjar eða höfuðborgarbúa þótt hrauni verði beint í sjó.

„En þetta baneitraða gas sem getur myndast við snertingu hrauns og sjávar gæti reynst íbúum Grindavíkur hættulegt,“ segir hann og nefnir dæmi um að á Hawai hafi fólk dáið eftir að hafa andað að sér gasinu. Skaði á lungum geti á örskömmum tíma orðið óafturkræfur við innöndun.

Ef eldgosið sem nú mallar af nokkrum krafti mun vara árum saman verður til verulegt hraun sem býr til nýtt landslag. Eftir því sem gosið varir lengur því stærri verður hraunbreiðan.

„Þess vegna þarf að tryggja að hraunið sem nú flæðir fari í rás sem leiðir það út í sjó,“ segir Þorvaldur ef langvinnt gos verður ofan á.

„Þá væri betra að beina hrauninu í sjóinn austan við Grindavík  fremur en vestan við bæinn,“ segir hann.

Annar vandi er hvaða innviðum skuli þá fórnað og hvaða innviði skuli verja ef eldgosið varir árum saman. Á að fórna Nesvegi eða Suðurstrandavegi ef velja þarf á milli er ein spurningin.

Á hinn bóginn ítrekar Þorvaldur að allt kunni að fara á besta veg. Jafnvægi gæti skapast milli kvikuhólfanna, þess sem liggur dýpra og hins sem liggur ofar. Kannski ljúki eldgosinu næstu daga og þá gætu eldgos á Reykjanesskaga orðið úr sögunni um langt skeið.

2019014270

„Það er búið að rjúfa ferlið með þessu gosi núna og kannski er búið að rjúfa það til framtíðar,“ segir Þorvaldur. „Kannski mun gosið malla áfram í vikur, mánuði, jafnvel einhver ár á þessum stað. Enginn veit hve lengi þetta gos varir. Þegar því lýkur segir mér svo hugur að þá gætu orðið endalok hrinunnar á Sundhnúkagígaröðinni.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí