Að minnsta kosti 24 Palestínumenn eru látnir eftir að Ísraelsher gerði loftárás á bílalest með neyðaraðstoð á Gaza í gær, þriðjudag. Árásin beindist að fólki sem hafði safnast saman í útjaðri Gazaborgar og beið eftir mataraðstoð. Samkvæmt lýsingum vitna réðust ísraelskar herþotur að fólkinu, sem var hluti af nefndum sem hafa verið settar á laggirnar til að auðvelda flutning á hjálpargögnunum innan borgarinnar.
Eftir því sem WAFA fréttastofan greinir frá lýstu sjónarvottar því að fjöldi látinna og særðra hefði legið eftir á jörðunni eftir árásina. Vörubílar sem fluttu matvælin eyðilögðust í árásinni og verulegar skemmdir urðu á næsta nágrenni, svo öflugar voru árásirnar.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ísraelsher gerir árásir á fólk sem bíður eftir bílalestum með neyðaraðstoð. Þannig léust 118 og 760 særðust í fjöldamorðum ísraelska hersins á óbreyttum borgurum sem biðu eftir matarsendingu 29. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt stjórnvöldum á Gaza hafa yfir 400 Palestínumenn látist í beinum árásum Ísraelshers á fólk sem bíður neyðaraðstoðar frá upphafi stríðsins. Á sama tíma er Gaza-strönd öll á barmi hungursneyðar.
Tala látinna Palestínumanna frá upphafi stríðsins, 7. október, nálgast nú 32 þúsuns manns, og 74 þúsund eru særðir. Um 85 prósent íbúa á Gaza eru á flótta og árásir Ísraelshers hafa eyðilagt 60 prósent af innviðum á Gaza.