Málefni fatlaðs fólks óaðskiljanlegur hluti af sjálfbærri þróun

Gefa þarf öllum, ekki eingöngu sumum, tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Fatlað fólk býr við skert aðgengi að þátttöku í íslensku samfélagi þ.m.t. skert aðgengi að menntun, atvinnulífi, mannvirkjum, heilbrigðisþjónustu og almennri velsæld. Samþætta verður málefni fatlaðs fólks sem óaðskiljanlegan hluta áætlana um sjálfbæra þróun. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka við drög að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun, svonefnda hvítbók um sjálfbært Ísland. Umsögnin fylgir hér að neðan. 

ÖBÍ réttindasamtök telja mikilvægt að Ísland uppfylli heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á tilsettum tíma og vinni markvist að sjálfbærni landsins í þágu samfélagsins og komandi kynslóða. ÖBÍ tekur heilshugar undir framtíðarsýn heimsmarkmiðanna um heim þar sem mannréttindi og jafnrétti allra eru virt og sárafátækt heyrir sögunni til. Fatlað fólk býr við skert aðgengi að þátttöku í íslensku samfélagi þ.m.t. skert aðgengi að menntun, atvinnulífi, mannvirkjum, heilbrigðisþjónustu og almennri velsæld.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), er leiðarljós í öllu starfi ÖBÍ og lykillinn að inngildingu fatlaðs fólks inn í samfélagið. Gefa þarf öllum, ekki eingöngu sumum, tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. SRFF leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þess að málefni fatlaðs fólks verði samþætt sem óaðskiljanlegur hluti áætlana um sjálfbæra þróun. ÖBÍ leggur fram eftirfarandi athugasemdir og tillögur við drög að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun.

4.1 Réttlát umskipti fyrir alla hópa samfélagsins

Málefni fatlaðs fólks ná inn á öll svið samfélagsins og því er mikilvægt að huga að hvaða áhrif umskipti hafa á daglegt líf fatlaðs fólks til jafns við ófatlaða og tryggja verður öllum jöfn tækifæri.

Kjarnaþjónusta í dag er útilokandi. Jaðarhópar fá ekki rafræn skilríki og hafa ekki aðgang að bankareikningum og rafrænni heilbrigðisþjónustu. Snertiskjáir í umhverfi sem hafa víðast hvar yfirtekið móttökur þjónustustofnana gagnast ekki þeim sem sjá ekki á þá. Myndavélaeftirlitskerfi í bílastæðahúsum greina ekki stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, sem eru því rukkaðir í trássi við lög.

Við hönnun allra kerfa verður að beita hugmyndafræði algildrar hönnunar sem horfir fyrst og fremst til þarfa þeirra sem verða vanalega út undan. Kerfin mega ekki bara virka fyrir flesta eins og hefur viðgengist. Það er engin hagkvæmni fólgin í því að útbúa sérlausnir fyrir afmarkaða hópa. Það hefur líka sýnt sig að hönnun sem gagnast sérstaklega fötluðu fólki er jafnframt betri fyrir alla.

ÖBÍ telur brýnt að stjórnvöld bregðist markvist við þessari stöðu og tryggi inngildingu allra að íslensku samfélagi.

4.2 Efnahagslega sjálfbært samfélag

Gefa þarf öllum, ekki eingöngu sumum, tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Hafa verður það í huga að fatlað fólk er eins ólíkt og það er margt. Það er grundvallaratriði og hagsmunur allra að fólk fái störf við sitt hæfi þar sem hæfileikar, menntun, reynsla og styrkleikar þeirra nýtast.

Þá er ekki er nóg að einblína einungis á starfsgetu einstaklinga til að framfleyta sér með atvinnutekjum, þar sem hluti fatlaðs fólks getur ekki verið á vinnumarkaði sökum fötlunar og/eða skorts á tækifærum m.a. vegna skertra starfsgetu. Afkomuöryggi ætti að vera í forgrunni, þ.e. að fólki séu tryggðar tekjur til fullnægjandi framfærslu óháð getu til að afla atvinnutekna.

Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki sem hefur því fá úrræði. Þjóðin er að eldast og því verður að gæta þess vel að allt nýtt íbúðarhúsnæði sé fyllilega aðgengilegt svo að fólk þurfi ekki að flytja í sértæk úrræði þegar aldurinn færist yfir og hreyfigetan minnkar. Óaðgengileg hönnun íbúða og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks um að komast í örugga búsetu á eigin forsendum.

Stjórnvöld verða að tryggja aðgengi allra að mannvirkjum landsins í stefnu sinni um sjálfbæra þróun svo að fatlað fólk geti tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Frétt af vef ÖBÍ.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí