Há gildi brennisteinsdíóxíðs mælast nú við Bláa lónið. Engin starfsemi er á staðnum. Á sjöunda tímanum í morgun mældust loftgæði skaðleg og sökudólgurinn er vitaskuld eldgosið við Sundhnúksgíga, sem enn heldur velli.
Rúv hefur eftir Salóme Jórunni Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, að ef menguninni linnir ekki verði svæðisstjórn tilkynnt um stöðu mála.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur varaði við gasmengun við Bláa lónið í fréttaviðtali við Samstöðina síðastliðinn föstudag. Hann vill að þar verði keyptir gasmælar og kallar jarðvísindamaðurinn á vernd fyrir starfsfólk og gesti.
Ferðamönnum hefur fækkað miðað við áætlanir vegna jarðeldanna. Ljóst er að gasmengunin bætir ekki úr skák.
Hraunstraumur er sunnan við Hagafell í vesturátt. Ríkjandi vindáttir á þessum árstíma eru þannig að líklegt er að þær verði starfseminni í Bláa lóninu óhagstæðar.
Eein spurningin er hve mikil áhrif það hefur á Ísland sem aðdráttarafl erlendra ferðamanna ef eituggufur ógna viðvarandi starfsemi í einni helstu náttúruperlu landsins.