Á norðurhluta Gaza-strandar líða 70 prósent íbúa hungur og er svæðið á barmi þess að yfir það steypist hungursneyð. Frekari stríðsrekstur á Gaza mun valda því að um helmingur íbúa á allri Gaza-strönd svelti heilu hungri.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í dag. Í skýrslunni segir að því sem næst allir íbúar Gaza eigi í stórfelldum erfiðleikum við að afla sér matar og um 677 þúsund manns búi við hungur sem er flokkað sem efsta stig hungurs. Þar af eru 210 þúsund manns á norðuhluta Gaza.
Í skýrslunni er varað við því að láti Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels verða af þeim áætlunum sínum að gera allsherjarárás á Rafahborg, svo sem hann hefur ítrekað hótað og lýst yfir að gert verði, muni það steypa yfir milljón manns í hungursneyð. Það er helmingur allra sem eftir eru á Gaza. Það er mesti fjöldi fólks í heiminum í dag sem stendur frammi fyrir yfirvofandi hungursneið, og aðeins hefur tekið fimm mánuði að skapa það ástand.
Talsmenn Matvælaáætlunarinnar segja að enn sé mögulegt að snúa stöðunni við, en til þess þurfi tafarlaust vopnahlé og ógrynni mataraðstoðar sem flytja þurfi linnulítið inn á svæðið. Þá þarf að tryggja íbúum Gaza aðgang að hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu.