Útför rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny fer fram í dag, hálfum mánuði eftir andlát hans í rússneskri fanganýlendu. Navalny var ötulasti andstæðingu Pútíns Rússlandsforseta um árabil. Ábyrgðinni á dauða hans hefur verið varpað á Pútín en stjórnvöld í Kreml neita öllu slíku.
Samkvæmt nánustu fjölskyldu og samstarfsfólki Navalny fengu þau þvert nei frá fjölda samkomustaða við því að útförin færi fram þar. Að endingu fékkst heimild til að athöfnin færi fram í Kirkju helgimyndar guðsmóðurinnar sem sefi sorgir mínar, í suðausturhluta Moskvu. Moskvu lögreglan setti í gær upp vegtálma við kirkjuna og gætir óeirðalögregla í fullum skrúða svæðisins í kring.
Óljóst er hverjir muni sækja útför Navalny en henni verður streymt beint. Ekkja Navalny. Yulia Navalnaya,lýsti því í vikunni að hún óttaðist að Vladimir Pútín Rússlandsforseti myndi fyrirskipa handtökur, hennar og annarra, við útförina. Hart hefur verið þrýst á fjölskylduna að útförin verði kyrrlát, fjölskylduathöfn.
Móðir Navalny, Lyudmila Navalnaya, mátti berjast fyrir því við yfivöld svo dögum skipti að fá lík sonar síns afhent. Sætti hún hótunum um að fá líkið ekki afhent, það yrði látið „rotna á staðnum“ ef hún sættist ekki á að útför Navalny færi fram í kyrrþey. Á það sættist hún ekki og fék lík sonar síns loks afhent um síðustu helgi, yfir viku frá dauða hans. Kenningar voru uppi um að stjórnendur fanganýlendunnar hefðu dregið að afhenda líkið sökum þess að eitrað hefði verið fyrir Navalny og þau eiturefni, hver sem þau hefðu verið, væru enn greinanleg á líki hans. Ekkert slíkt hefur þó verið staðfest.
Dauði Navalny er enn óútskýrður og hafa yfirvöld ekki gefið út dánarorsök. Engum blandast hins vegar hugur um að Pútin beri ábyrgð á dauða hans, og því hafa þjóðarleiðtogar á Vesturlöndum beinlínis lýst yfir. Stjórnvöld í Kreml hafa hafðlega neitað því.
Navalny var háværasti gagnrýnandi Pútíns Rússlandsforseta um margra ára skeið. Hann afplánaði 19 ára dóm í fanganýlendunni, sem féll í ágúst á síðasta ári, en Navalny var dæmdur fyrir öfgahyggju í tengslum við Andspillingar stofnun sína. Á þeim tíma sat Navalny þegar af sér dóma fyrir aðrar sakir, sem hann sagði að hann hefði verið dæmdur fyrir af pólitískum ástæðum. Hann hafði ítrekað verið fangelsaður, honum meinað að bjóða sig fram í kosningum og árið 2020 eitruðu útsendarar FSB, rússnesku leyniþjónustunnar fyrir honum með taugaeitrinu Novichok. Navalny náði heilsu og hélt baráttu sinni áfram.
Andspillingar stofnunina setti hann á laggirnar árið 2011, í þeim tilgangi að opinbera spillingu og misferli Pútíns og samstarfsmanna hans. Barátta hans aflaði honum fjölda fylgismanna innanlands, sem erlendis. Margir frjálslyndir Rússar litu á Navalny sem píslarvott og vonuðust til að hann myndi að endingu verða frelsaður og taka við forseta embætti landsins, líkt og frelsishetja Suður-Afríku, Nelson Mandela, gerði á sínum tíma.
Útför Navalny hefst klukkan 11:00 að íslenskum tíma.