Ísrael hefur ekki fylgt ákvæðum bráðabirgða niðurstöður Alþjóðadómstólsins í Haag heldur þvert á móti brotið gegn þeim. Það hafa Ísraelar gert með því að hamla sífellt og að ástæðulausu flutningi á neyðargögnum til Gaza-strandarinnar.
Þetta er niðurstaða skýrslu mannúðarsamtakanna Refugees International (RI), þrátt fyrir yfirlýsingar Ísraelsstjórnar um annað. Ísraelar héldu því fram fyrir Alþjóðadómstólnum í janúar að ríkið hefði með virkum hætti bætt aðkomuleiðir og dreifingu hjálpargagna á Gaza. Rannsókn RI leiddi hins vegar í ljós að ísraelsk yfirvöld hefðu sett upp óþarfar hindranir, ófyrirsjáanlegt eftirlitskerfi og íþyngjandi skrifræði.
Í niðurstöðu dómstólsins sagði að Ísraelum væri skylt að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að afstýra þjóðarmorði samfara árásarstríði sínu á Gaza. Það skyldi gert með því meðal annars að tryggja að neyðaraðstoð bærist óhindrað til svæðisins.
Í skýrslunni segir einnig að fullyrðingar ísraelskra yfirvalda um að þau hafi aukið getuna til að koma neyðaraðstoð til Gaza stæðust ekki skoðun. Fjöldi bíla með neyðaraðstoð hefði helmingast í febrúar frá fyrri mánuði, samkvæmt gögnum frá Sameinuðu þjóðunum. Þá væru mikilvægar aðflutningsleiðir til norðurhluta Gaza lokaðar. Aðgerðir Ísraelshers kæmu þá í veg fyrir skilvirka dreifingu matvæla, vatns og annarra nauðsynlegra bjarga til svæðisins.
Skýrslan byggir á viðtölum við opinbera starfsmenn, starfsmenn mannúðarsamtaka og tölfræðilegum göngum alþjóðastofnana og sjálfstæðra samtaka.