Á hinum Norðurlöndunum eru strangari reglur gerðar til hælisleitenda sem vilja vernd sem tengist fjölskyldusameiningu en hér á landi. Nú er hægt að sækja um fjölskyldusameiningu að tveimur árum liðnum hér. Á hinum Norðurlöndum eru gerðar sérstakar kröfur um að ekki sé bara horft til tíma heldur hafi hælisleitandi haft tekjur, kröfur séu gerðar um húsnæði sem og kunnáttu í tungumálinu.
Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi áðan í umræðum um frumvarp um breytingar á útendingalögum.
Ef vilji ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga verða því ekki bara breytingar á útlendingamálum á yfirstandandi þingi heldur einnig á næsta þingi.
Guðrún sagði í framsögu með frumvarpinu að 400 milljarðar hefðu farið í málaflokkinn af hálfu íslenska ríkisins árið 2014 en fjárhæðin hefði verið komin í 20 milljarða í fyrra.
Innviðir væru undir miklu álagi. Ein ástæðan væri mikill fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Margar áskoranir fylgdu þeirri breytingu og þyrfti að bregðast við með strangari reglum.
Guðrún spurði Jóhann Pál Jóhannsson í andsvari í umræðunum hvort Samfylkingin styddi frumvarpið eftir að þingmaður Samfylkingarinnar hafði gagnrýnt ákveðin atriði í því.
Jóhann Páll sagðist jákvæður gagnvart sumum breytingum. Hann sagðist styðja markmið frumvarpsins.
Bergþór Ólafsson, þingmaður Miðflokksins, óskaði Jóhanni Páli til hamingju með stefnubreytinguna. Hann sagði að Samfylkingin væri eins og Miðflokksmenn í málinu.