Mohammed Alkurd, sem kom hingað til lands sem flóttamaður frá Palestínu fyrir nokkru síðan, hefur nú hafið söfnun svo hægt sé að aðstoða fjölskyldu hans, sem enn er í Palestínu, við að fæða hungraða íbúa. Hungursneyð vofir yfir í Palestínu og má segja að við Íslendingar höfum verið beinir þátttakendur í henni, í það minnsta um tíma. Fyrir utan aðgerðir Ísraelsmanna þá er einn stærsti þáttur í yfirvofandi hungursneyð sú ákvörðun margra landa að hætta að greiða framlag til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Ísland var þar á meðal um tíma en nýverið var samið um að við myndum greiða kjarnaframlags Íslands til UNRWA fyrir næsta gjalddaga.
Mohammed segir að fjölskylda hans sé enn í þeirri stöðu að geta eldað fyrir bágstadda. „Ég ætla ekki að segja mikið, en það sem ég get sagt er að fólk er að svelta á Gaza og fjölskyldan mín gerir siðferðilega skyldu sína til að hjálpa mörgum, svo ég ákvað að hefja söfnun fyrir fjölskylduna mína svo hún geti eldað og fætt sem flesta,“ skrifar hann á Facebook.
Hann segir að þeir sem hafa áhuga á að aðstoða hann við þetta megi gjarnan hafa samband við hann. „Vegna þess að við erum íbúar í Rafah, hefur húsið okkar ekki enn verið algjörlega eyðilagt, og fjölskyldan mín getur enn eldað og hjálpað, svo ég vona að allir sem hafa áhuga á að styðja hafi samband við mig svo að ég geti sent honum PayPal eða bankareikning ,“ segir Mohammed.
Hann sagði sögu sína í viðtali við Samstöðina árið 2022 en það viðtal má sjá hér fyrir neðan.