Segja Ísraela hafa þvingað starfsfólk UNRWA til að játa ranglega þátttöku í hryðjuverkum Hamas 

Talsmenn Flóttamannahjálpar Palestínumanna (UNRWA) segja að Ísraelar hafi beitt starfsmenn stofnunarinnar ofbeldi og hótunum í því skyni að knýja þá til að játa á sig þátttöku í hryðjuverkum Hamas samtakanna. Starfsmenn stofnunarinnar sem hafi verið leystir úr haldi Ísraela lýsa alvarlegum barsmíðum, vatnspyndingum og hótunum um ofbeldi gegn fjölskyldumeðlimu. 

Þetta kemur fram í skýrslu sem stofnunin hefur lagt fram og fréttastofa Reuters hefur undir höndum. Skýrslan, sem er dagsett í febrúar síðastliðnum, lýsir meintu harðræði sem starfsmenn UNRWA hafi verið beittir í haldi Ísraela. Í skýrslunni kemur fram að starfsmenn UNRWA, sem er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem sér um neyðaraðstoð við Palestínu, hafi verið þvingaðir til að lýsa því ranglega að UNRWA væri tengd við Hamas-samtökin og að starfsmenn hefðu tekið þátt í árásunum 7. október. 

Ísraelar lögðu fram ásakanir á hendur UNRWA í janúar þar sem fullyrt var að tólf af 13.000 starfsmönnum stofnunarinnar hefðu tekið þátt í árásum Hamas á Ísraela 7. október. Afleiðingar ásakananna urðu þær að sextán ríki, þar á meðal Bandaríkin og Kanada, stöðvuðu fjárframlög sín til UNRWA, með skelfilegum afleiðingum fyrir hjálparstarf stofnunarinnar. Stofnunin sagði upp nokkrum hluta starfsmanna sem ásakanir beindust að, til að vernda eftir bestu getu starfsemi UNRWA. 

Í skýrslunni segir að fjöldi palestínskra starfsmanna UNRWA hefðu verið teknir höndum af ísraelska hernum. Þeir hefðu lýst illri meðferð og ofbeldi, þar á meðal alvarlegum barsmíðum, vatnspyntingum og hótunum um að fjölskyldur þeirra yrðu skaðaðar. 

„Starfsmenn stofnunarinnar hafa verið beittir hótunum og þvingunum af ísraelskum yfirvöldum meðan þeir voru í haldi þeirra. Þeir voru þvingaðir til að gefa út ósannar yfirlýsingar, meðal annars þær að stofnunin hefði tengsl við Hamas og að starfsmenn UNRWA hefður verið þátttakendur í ódæðisverkunum hinn 7. október 2023,“ segir í skýrslunni. 

Í skýrslunni er einnig greint frá lýsingum Palestínumanna í haldi Ísraela, annarra en starfsmanna UNRWA, um ofbeldi sem þeir hafi verið beittir. Meðal þess sem þar er talið upp eru barsmíðar, niðurlægingar og hótanir, að hundum hafi verið sigað á fanga, þeir beittir kynferðislegu ofbeldi, auk þess sem fangar hafi látið lífið sökum þess að þeim hafi ekki verið útveguð læknishjálp. 

Reuters fréttastofan fór fram á að fá afhent útskriftir af viðtölunum þar sem ásakanir um þvingaðar og falskar játningar eru settar fram, en UNRWA varð ekki við þeirri beiðni. Fréttastofan gat ekki með sjálfstæðum hætti staðfest réttmæti ásakananna en þær eru í samræmi við ásaknir Palestínumanna sem losnað hafa úr haldi Ísraela í desember, febrúar og mars, og sem greint hefur verið frá í fjölda fjölmiðla, um ofbeldi, hótanir og harðræði sem fangar hafa verið beittir í haldi Ísraela.

Upplýsingafulltrúi UNRWA, Juliette Touma, segir að stofnunin hyggist skila skýrslunni, sem ekki hefur verið formlega útgefin, til hinna ýmsu stofnana innan sem utan Sameinuðu þjóðanna. Þegar stríðinu loks ljúki sé þörf á gríðarlega umfangsmiklum rannsóknum á mannréttindabrotum sem framin hafa verið, sagði Touma. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí