Sendiráð Bandaríkjanna í Rússlandi hefur gefið út viðvörun vegna hugsanlegra hryðjuverka í Moskvu á næstu tveimur sólarhringum. Fleiri stofnanir, þar á meðal utanríkisráðuneytið breska, hafa gefið samsvarandi viðvaranir. Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar ekki gefið út neinar viðvaranir og hafa ekki tjáð sig um meinta yfirvofandi hættu.
Segir í viðvöruninni að sendiráðið sé að fylgjast með og meta upplýsingar þess efnis að öfgamenn hyggist ráðast á mannmargar samkomur í Moskvu, þar á meðal tónleika. Er bandarískum borgurum ráðlagt að forðast mannfjölda næstu tvo sólarhringana, sagði í viðvöruninni sem gefin var út í gærkvöldi. Ekki koma fram neinar upplýsingar um hverjir meintir öfgamenn eru.
Rússneska öryggislögreglan FSB greindi frá því í gær að fulltrúar hennar hefðu komið í veg fyrir aðgerðir sellu Íslamska ríkisins í Kaluga héraði. Hefði sellan haft í hyggju að ráðast á ónefnt skotmark tengt gyðingdómi í Moskvu. Samkvæmt yfirlýsingu FSB veittu meðlimir sellunnar mótspyrnu og voru skotnir af fulltrúum FSB.